Tónlist og afríka - kennarabók

22 Trommuhringur Trommuhringur er fyrirbæri sem þekkist víða í heiminum og hefur undanfarna áratugi notið vaxandi vinsælda. Trommuhringur er hefð sem tengist frekar heimstónlist almennt en afrískri tónlist sérstaklega. Hinsvegar eiga trommuhringir mjög vel við afrísku tónlistarhefðina sem byggir svo oft á leik með rytma og almennri þátttöku. Ekki skaðar að einn helsti kostur trommuhringja er að allir geta tekið þátt og notið þrátt fyrir ólíka getu. Trommuhringir byggja á því að fólk komi saman með trommur eða alls konar takthljóðfæri og spili saman ýmist með eða án stjórnanda. Það er alls ekki nauðsynlegt að fylgja niðurnjörfuðu handriti þegar trommuhring er stjórnað heldur frekar að hafa til taks banka hugmynda sem gripið er til eftir því hvernig samspilið þróast. Hringleikir Í þessum leik eru æfingar sem hjálpa nemendum að beina athyglinni að stjórnanda og undirbúa hann fyrir frekari vinnu þar sem samspil hópsins er lykilatriði. Kennarinn stjórnar svo hópnum með orðum og handahreyfingum. • Nemendur sitja á stólum og mynda hring. Kennari er í miðjunni. • Látið bylgju fara af stað þar sem nemendur standa upp með báðar hendur uppréttar. Kennari stjórnar hraða bylgjunnar með bendingum. • Sendið eitt klapp af stað í hringinn þannig að einn klappi í einu en sem minnstur tími líði á milli klappa. • Prófið að senda klapp aftur, nú með mismunandi styrk. T.d. að klappa aðeins með tveimur fingrum eða með kúptum lófum. • Látið fjóra og fjóra nemendur syngja lagið Ole, ole, ole, ole … í keðjusöng þannig að einn taktur (hver með fjórum slögum) líði á milli þess að hóparnir byrji að syngja. Athugið að lagið hefst á upptakti. • Látið eins hópa og hér að ofan klappa Áfram Ísland taktinn í keðju. Fyrst þannig að fjögur slög líði á milli þess að hóparnir byrji en ef það gengur vel má prófa að láta aðeins tvö slög líða á milli. Þá hljómar hann sérstaklega vel.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=