Til kennara og foreldra! Í Smábókaflokki Menntamálastofnunar eru bækur sem ætlað er að vekja lestraráhuga yngstu barnanna og veita þeim þjálfun í lestri. Leitast er við að höfða til ólíkra áhugasviða með texta sem er innihaldsríkur þrátt fyrir einfalda framsetningu. Lögð er áhersla á að sögurnar höfði jafnt til tilfinninga og rökhugsunar og ekki síst kímnigáfu lesenda. Áður en bókin er lesin Áður en lestur hefst ættu nemendur að skoða bókina, ræða um hana og kynna sér • hver er höfundur hennar • hver hefur teiknað myndirnar • hvað bókin heitir, þ.e. titill • um hvað hún fjallar Einnig ættu nemendur að skoða vel myndirnar og gera sér í hugarlund hvað gerist í sögunni, hvar hún fer fram, hver atburðarásin er, hvaða persónur sjást á myndunum o.s.frv. Umræðuefni heima og í skólanum • Hver er munurinn á að alast upp í bæ eða sveit? Börn alast upp við mjög fjölbreytilegar aðstæður. Sum í dreifbýli, önnur í þéttbýli. Hver er munurinn? Hvað hefur sveitin upp á að bjóða en ekki þéttbýlið. Hvað hefur þéttbýlið fram yfir dreifbýlið? • Hvað dreymir þig um að gera þegar þú verður stór? Allir krakkar eiga sér drauma um framtíðina. Hvað dreymir þau um? Hvað dreymdi pabba og mömmu um. Rættust þeir draumar? • Skilja dýr mannamál? Á myndunum í bókinni er eins og hundurinn hans Tomma sé að fylgjast með því sem Tommi segir. Skilja dýr mannamál? Hver er reynsla barnanna? • Hvað er endurnýting? Undanfarin ár hefur verið lögð mikil áhersla á að endurnýta. Stuðla nemendur með einhverju móti að endurnýtingu hluta? • Öryggi. Hvaða öryggistæki þarf þegar ekið er um á snjósleða, fjórhjóli, dráttarvél eða bara venjulegu reiðhjóli? Hvaða reglur gilda um hvenær börn og unglingar mega aka slíkum tækjum? Hvað skal gera ef slys bera að höndum? Skemmtileg verkefni • Teiknið sniðug tæki eða hluti sem búa má til úr drasli. Gefið þeim nafn. • Fréttamaður tók viðtal við Tomma. Búið til samtal fréttamannsins og Tomma og leikið fyrir bekkjarfélagana. • Skrifið sögu um Tomma þegar hann verður orðinn stór. Lesið söguna fyrir bekkinn ykkar.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=