Töfraskinna

96 að þurfa hvíld. Fyrst vatn er svona torfundið hafa þau kannski líka þurft að fara aftur niður að stöðuvatninu til að bæta á sig. Kannski er það líka eina úrræðið fyrir mig. Næsta morgun líður mér ömurlega. Mig verkjar í höfuðið við hvern hjartslátt. Einfaldar hreyfingar valda sárum stingjum í öllum liðamótum. Ég dett niður úr trénu fremur en að stökkva niður. Ég er margar mínútur að taka saman föggur mínar. Innst inni veit ég að þetta er rangt. Ég ætti að vera varkárari, hreyfa mig hratt og ákveðið. Hugsunin er aftur á móti þokukennd og ég á erfitt með að ákveða hvað ég ætti að gera. Ég halla mér upp að trjábolnum og strýk fingri yfir tunguna sem er viðkomu eins og sandpappír á meðan ég velti fyrir mér hvaða úrræði ég hef. Hvernig get ég orðið mér úti um vatn? Fara aftur niður að stöðuvatninu. Útilokað. Ég kæmist aldrei þangað. Vonast eftir rigningu. Hvergi sést ský á himni. Halda áfram að leita. Já, það er eina vonin. En svo dettur mér annað í hug og reiðin sem fer um mig við tilhugsunina kemur mér aftur til sjálfrar mín. Haymitch! Hann gæti sent mér vatn! Ýtt á takka og látið senda mér það í silfurlitri fallhlíf innan nokkurra mínútna. Ég veit að ég hlýt að hafa styrktaraðila, að minnsta kosti einn eða tvo, sem hefðu efni á lítra af vökva handa mér. Já, það er dýrt en þetta fólk veður í seðlum. Og það veðjar líka á mig. Kannski skilur Haymitch ekki hvað þörf mín er brýn. Ég segi orðið eins hátt og ég þori. „Vatn.“ Ég bíð vongóð eftir að fallhlíf svífi niður af himnum. En ekkert gerist. Eitthvað er að. Er ég að blekkja sjálfa mig með að ég hafi styrktaraðila? Eða varð framkoma Peeta til þess að þeir halda allir að sér höndum? Nei, ég trúi því ekki. Einhver þarna vill kaupa handa mér vatn en Haymitch neitar að senda mér það. Hann er ráðgjafi minn og stjórnar því öllum gjafasendingum frá styrktaraðilunum. Ég veit að hann hatar mig. Hann hefur ekkert reynt að leyna því. En nógu

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=