Töfraskinna
72 HANDRIT Innri tími merkir hversu langur tími líður innan sögu eða frásagnar. Sumar sögur gerast á stuttum tíma, til dæmis broti úr degi, aðrar ná yfir margar aldir. Ytri tími merkir hvenær sagan gerist. Til dæmis í nútímanum, í fjarlægri fortíð eða í ímyndaðri framtíð. Handrit geta verið margs konar. Þegar talað er um handrit er ýmist átt við sögulegar handskrifaðar bækur, ritaðar á skinn eða pappír; eða skrifaðan texta sem er grunnur að kvikmyndum, leiknum auglýsingum, útvarpsþáttum, tölvuleikjum og fleiru. Hér er átt við seinni gerðina, það er handrit sem önnur verk byggjast á. Algengt er að kvikmyndahandrit skiptist í þrjá hluta sem kallast þættir. Í fyrsta þætti eru persónur kynntar til sögunnar, sögusvið og ytri tími. Tökum teiknimyndina Konung ljónanna sem dæmi. Fljótlega gerist eitthvað sem hrindir atburðarásinni af stað. Það kallast kveikja eða agn. Oft þarf aðalpersónan að fást við ókunnar eða framandi aðstæður, eins og þegar Simbi og Naala stelast í fílakirkjugarðinn. Fyrsta þættinum lýkur þegar sagan tekur óvænt nýja stefnu og þannig færist hún yfir í annan þátt, eins og þegar Mufasa deyr og Simbi flýr að heiman. Annar þáttur nefnist flækja og er oft stærsti hluti verksins. Þar er allt komið í hnút. Í Konungi ljónanna flýr Simbi að heiman og Skari tekur við stöðu föður hans sem konungur. Engin lausn á vandamálunum er í sjónmáli. Þátturinn endar á hvörfum, eins og þegar Naala kemur aftur og minnir Simba á hver hann er í raun og veru. Þriðji þáttur er oft viðburðaríkur. Hann nær oftast hápunkti, gjarnan í átökum eða uppgjöri, eins og þegar Simbi og Skari berjast. Í kjölfarið kemur lausn, sagan endar: Simbi og Naala taka við völdum og kynna ljónsungann sinn. Hringrás lífsins heldur áfram.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=