Töfraskinna

5 Kæru lesendur Velkomin á vit ævintýranna. Í þessari bók fáið þið meðal annars að kynnast frásögnum þar sem undur og furður ráða ríkjum og hið ómögulega verður mögulegt. En þið fáið einnig að kynnast hversdaglegri ævintýrum, ægikröftum náttúrunnar og sköpunarkrafti ykkar sjálfra. Hér eru ekki aðeins sögur, heldur einnig ljóð, blaðagreinar, myndasögur, viðtöl og fræðitextar. Margir textanna eru furðusögur þar sem allt getur gerst. Textarnir koma víðsvegar að, frá Íslandi sem og öðrum löndum. Frásagnarlistin hefur fylgt mannkyninu frá alda öðli og segja má að hún sé einn af hornsteinum menningarinnar. Hugsið ykkur: höfundur ímyndar sér atburðarás og skrifar hana niður en svo meðtaka lesendur textann og hver þeirra túlkar það sem hann les á sinn hátt. Hver lestrarupplifun er einstök, því að ímyndunarafl hvers og eins er einstakt. Þannig eru töfrar frásagnarinnar ótakmarkaðir og brunnur hugmyndaflugsins ótæmandi. Verkefnin í bókinni eru fjölbreytt. Ykkur mun til dæmis gefast tækifæri á að spreyta ykkur í ritlist, meðal annars með því að skrifa örsögu, þjóðsögu, ljóð og myndasöguhandrit. Önnur verkefni byggjast á rannsóknum, hópvinnu og umræðum um lífið og tilveruna. Megi Töfraskinna færa ykkur jafn mikla ánægju við lestur og verkefnavinnu og hún færði okkur við að velja texta og semja. Emil Hjörvar Petersen og Harpa Jónsdóttir

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=