Töfraskinna

64 mein. Hann hafi aðeins girnst æskueplin. Mér er létt að heyra það. Bragðarefurinn Loki heilsar mér. Hann segir mér alla sólarsöguna, hvernig Þjassi í arnarham hóf Loka á loft og kúgaði hann til þess að narra Iðunni með æskueplin út í skóg, þar sem örninn hóf hana á brott. Æsirnir tóku þá að eldast og Loka var skipað að bjarga Iðunni og ná eplunum aftur. Loki flaug í valsham til Þrymheims, breytti Iðunni með eplin í hnetu og flaug með hana úr dalnum. Þjassi veitti honum harða eftirför en þegar til Ásgarðs kom brugðust æsir hinir verstir við og kveiktu bál svo að arnarvængirnir sviðnuðu. Á jörðu niðri var Þjassi klófestur. „Mér þykir miður hvernig fór. Ég vildi skera hann pabba þinn á háls og leyfa honum að blæða út, það er minn háttur. En Þór á oft erfitt með að hemja bræðina.“ Þunnar varirnar falla inn á við þegar Loki brosir sínu breiðasta og um leið smeðjulegasta. Erfitt er að greina hvað glampinn í augunum merkir. „Í dag ert þú tekin í guðatölu og mátt velja þér einhvern af ásum eða vönum til að kvænast. Viltu ekki gleðjast? Í það minnsta reyna?“ Ég andvarpa. Þá tekur Loki til við að segja mér lélegar gamansögur. Hann reynir að koma mér til að hlæja en allt kemur fyrir ekki. „Dokaðu við, ég kem aftur!“ gellur í honum og hann hverfur bak við runna. Eftir drykklanga stund snýr hann aftur með geit í eftirdragi. Hann klappar saman lófunum, blístrar hátt og biður um athygli. „Þetta hlýtur þér að finnast fyndið, Skaði góð!“ Loki losar um snöruna á bandinu um háls geitarinnar og festir á skegg hennar. Hann gyrðir niður um sig buxurnar, tekur um endann á bandinu, leggur það að klofinu og bindur við hreðjar sínar. Því næst storkar hann geitinni, fælir hana og hræðir. Hún fyrrist við, reynir að stökkva á brott en Loki togar á móti. Í reipitogi við geitina, með bandið fast í klofinu, emjar hann af sársauka til skiptis við eymdarjarm hennar. „Af hverju er ég að gera þetta?!“ æpir hann. „Hvað er eiginlega að mér?!“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=