Töfraskinna
59 „Þarftu ekki að drífa þig niður eftir?“ spyr rám röddin. „Ná morgunráfi dýranna?“ Á þakinu situr heljarinnar örn. Þetta er faðir minn, í arnarhamnum. „Hvað hefurðu gert af þér núna?“ spyr ég. „Hvert fórstu í gær?“ Græðgi hans og hroki hafa komið okkur í klandur áður. Samskipti hans við æsi, vani og jafnvel aðra jötna eru stirð. Þess vegna einangraðist hann. Þess vegna ólst ég upp hér í fjöllunum. Ég kvarta þó ekki, ég nýt frelsisins og víðáttunnar. En ég er ósátt við háttalag föður míns. „Til Ásgarðs,“ svarar hann og lítur undan. „Þurfti að sinna mikilvægum erindum.“ Oftast sé ég hvort hann hefur eitthvað óhreint í pokahorninu, því þá herpir hann varirnar undir stórgerðu nefinu. En sem örn hefur hann engar varir, aðeins gogg. „Ætti ég að hafa áhyggjur?“ spyr ég. Hann breiðir út vænghafið og segir: „Farðu nú á veiðar, Skaði. Hafðu ekki áhyggjur af mér.“ II. Fall Þjassa Skíðin renna vel eftir skógarbotninum. Sólargeislum fækkar eftir því sem ég ferðast lengra inn í skóginn. Ég hægi ferðina, fer hljóðlega yfir, rýni í fönnina og ekki líður á löngu þar til ég kem auga á ungan hjört rótandi með snoppunni í fönninni, leitandi eftir æti. Þetta verður auðveldara en ég þorði að vona. Ég teygi mig eftir ör í örvamælinum á bakinu og legg hana á bogann. Strekki á honum. Miða. Er með hjörtinn í sigtinu. Bíð ögn lengur, því að ég vil hæfa hann í hjartastað. Ég virði dýr dalsins og vil ekki að þau þjáist, síst af mínum völdum. Þó verð ég að veiða, það er í eðli mínu. Þegar ég dreg inn andann og bý mig undir að sleppa örinni berst öskur niður hlíðina, sambland arnarskrækja og beljandi jötunsraddar. Orðabókaleit: Hvað merkja undirstrikuðu orðin og orðasamböndin í textanum? Fönn, örvamælir.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=