Töfraskinna
58 Veiðigyðjan – Emil Hjörvar Petersen Vafalaust eru þekktustu kvenpersónur norrænnar goðafræði ásynjan Frigg og vanadísin Freyja. Ein þeirra lítt þekktari er veiðigyðjan Skaði, en talið er að hún hafi verið tilbeðin í Skandinavíu. Í kvæðum og sögum birtist hún sem kappi og hörkutól með frelsisþrá, kona sem stendur uppi í hárinu á háttsettum ásunum. Smásagan „Veiðigyðjan“ byggir á nokkrum frásögum úr Eddukvæðum og Eddu Snorra Sturlusonar, sem eru dýrmætustu varðveittu fornritin um ásatrú, þar sem finna má frásagnir af guðum og heimsmyndinni allri. Hér er saga veiðigyðjunnar útfærð eftir höfði höfundar. I. Í Þrymheimi Fjallaloftið í Þrymheimi er engu líkt. Kaldir vindar bera með sér angan af barri og segja mér sögur af dýrunum sem búa víðsvegar í hlíðum, rjóðrum og trjátoppum. Dalurinn tekur á móti mér, ég skima yfir hvíta ábreiðuna yfir fjallgörðunum og viðarhafið við rætur þeirra. Ég festi á mig skíðin og hlusta á vetrarsöng trjánna; hvininn milli greina og brak og bresti morgunsins. Snjórinn er rakur og þykkur, í dag verður auðvelt að rekja spor. Áður en ég fer á veiðar kem ég við hjá föður mínum, jötninum Þjassa. Yfirleitt sest ég stundarkorn á allt of stóran koll á veröndinni og hann færir mér eitthvað heitt að drekka, eitthvert bragðvont seyði sem ég sötra fyrir kurteisis sakir. Við erum ólík, lítum ekki sömu augum á veröldina og getum ekki búið undir sama þaki. En þessi hefð heldur fjölskylduböndunum saman. Ég teygi mig að hurðinni, banka en enginn kemur til dyra. Legg við hlustir. Tel mig heyra þrusk fyrir innan. Þegar ég beygi mig niður til að losa um skíðin heyri ég vængjatak nálgast og rödd kveður við ofan af þakinu. Orðabókaleit: Hvað merkja undirstrikuðu orðin og orðasamböndin í textanum? Að skima, hvinur, að kveða við. viðarhaf: skógur
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=