Töfraskinna
50 Íslenskt vættatal: Tröll Orðið tröll er skylt sögninni að trylla og í elstu dæmum er það einkum haft um illvættir eða fjölkynngismenn og brúkað sem skammaryrði. Mjög snemma er þó tekið að nota orðið um bergbúa þar sem karlinn heitir einnig jötunn, risi og þurs, en kerlingin flagð, gýgur og skessa. Sú merking er löngu orðin allsráðandi. Þau eru í mannsmynd en langtum stærri og hrikalegri og stundum talin einhvers konar eldri kynstofn en mennirnir. Tröll eru því heiðin og þola illa sálmasöng og hljóm í kirkjuklukkum. Þau búa langt uppi í hömrum og hellum og lifa mest á dýraveiðum og fiskifangi. Sum þeirra þola ekki dagsljós og verða að steini ef sól nær að skína á þau. Þau eru kölluð nátttröll. Íslenskir listamenn hafa yfirleitt teiknað tröllin skarpleit og stórskorin líkt og landslagið. Tröll eru misjöfn að innræti. Sum eru grimmar og gráðugar mannætur eins og Grýla en önnur góðviljuð og liðsinna mönnum að fyrra bragði. Oftast eru þau talin heimsk en nokkur reynast spakvitur. Hvað sem öðru líður eru þau jafnan drenglynd og standa við orð sín trú sem gull. Því er tröllatryggð við brugðið. Bæði skessur og tröllkarlar áttu samt til að ræna eða seiða til sín mennska pilta og stúlkur. Ef þau undu sér þar eða tókst ekki að sleppa urðu börn þeirra svonefndir blendingar eða hálftröll. Oft er mjög erfitt að greina á milli trölla og einhvers konar landvætta. Mörgum sögnum ber saman um að karlkyni trölla væri mjög tekið að hraka á 16. öld en skessur hafi dáið út á 19. öld. Byggðir þeirra voru um land allt og mörg höfðu sérnöfn.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=