Töfraskinna
48 Nátttröllið — þjóðsaga Nátttröllið er þekkt tröllasaga úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Líkt og margar þjóðsögur er hún stutt en fær samt hárin til að rísa: tröll kemur á bæjarglugga að næturlagi og reynir að lokka til sín stúlku. Hún má alls ekki snúa sér við, annars er voðinn vís. Í sögunni kveðast þau á uns dagur rís. Ekki er alveg vitað hvað línan „snör mín en snarpa, og dillidó“ merkir. Í orðabók segir að snör merki kona. Snarpur þýðir meðal annars röskur eða ákafur. Konan virðist þarna ávörpuð með þessum hætti. Dillidó er notað til að svæfa börn, líkt og korríró. Stúlkan situr og raular yfir barni sem hún svæfir. Það var á einum stað að sá sem gæta átti bæjarins á jólanóttina meðan hitt fólkið var við aftansöng fannst annaðhvort dauður að morgni eða æðisgenginn. Þótti heimamönnum þetta illt og vildu fáir verða til að vera heima á jólanóttina. Einu sinni býðst stúlka ein til að gæta bæjarins. Urðu hinir því fegnir og fóru burtu. Stúlkan sat á palli í baðstofu og kvað við barn sem hún sat undir. Um nóttina er komið á gluggann og sagt: „Fögur þykir mér hönd þín, snör mín en snarpa, og dillidó.“ Þá segir hún: „Hún hefur aldrei saur sópað, ári minn Kári, og korriró.“ Þá er sagt á glugganum: „Fagurt þykir mér auga þitt, snör mín en snarpa, og dillidó.“ Þá segir hún: „Aldrei hefur það illt séð, ári minn Kári, og korriró.“ Þá er sagt á glugganum: „Fagur þykir mér fótur þinn, snör mín en snarpa, og dillidó.“
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=