Töfraskinna

41 virtist vera að yfirliði komin. Tröllið var á hægri hreyfingu í áttina til hennar og mölvaði um leið hvern vaskinn á fætur öðrum með kylfunni. „Reynum að rugla það!“ sagði Harry örvæntingarfullur og greip krana sem lá á gólfinu og kastaði honum í vegginn eins fast og hann gat. Tröllið nam staðar í seilingar fjarlægð frá Hermione. Það sneri sér við með erfiðismunum og deplaði augunum heimskulega eins og það væri að reyna að sjá hvaðan þessi hávaði kæmi. Það beindi illskulegum glyrnum sínum að Harry, hikaði og lagði síðan af stað í áttina að nýjum andstæðingi með kylfuna á lofti. „Halló — grautarhaus!“ æpti Ron úr hinum enda herbergisins og kastaði málmröri að tröllinu. Tröllið virtist ekki einu sinni finna þegar rörið lenti á öxlinni á því, en það heyrði í Ron, nam staðar og beindi ljótu trýninu að honum. Þá gafst Harry tími til að hlaupa aftur fyrir tröllið til Hermione. „Svona nú, hlauptu — hlauptu!“ æpti Harry og reyndi að draga hana í áttina að dyrunum en hún gat hvorki hreyft legg né lið. Hún þrýsti sér upp að veggnum og gapti af hryllingi. Tröllið virtist vera að ganga af göflunum vegna hrópanna í þeim sem mögnuðust upp í ærandi hávaða við bergmálið. Það gaf frá sér öskur og lagði af stað í áttina að Ron sem var næstur því og hafði enga möguleika á að komast undan. Þá gerði Harry dálítið sem var bæði afar djarft og óhemju heimskulegt. Hann tók mikið tilhlaup, stökk upp á bakið á tröllinu og læsti handleggjunum utan um hálsinn á því. Tröllið fann ekkert fyrir Harry en jafnvel tröll finna ef trépriki er stungið upp í nefið á þeim. Harry var nefnilega enn með töfrasprotann sinn í hendinni þegar hann stökk og hann hafði lent beint uppi í annarri nösinni á tröllinu. Tröllið öskraði af sársauka, engdist til og frá og sveiflaði kylfunni í allar áttir. Harry hékk á baki þess í dauðans angist því tröllið gat á hverri stundu náð til hans eða veitt honum hræðilegt högg með kylfunni. seiling: það að teygja handlegginn út eða upp engjast: teygjast og kreppast á víxl

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=