Töfraskinna

40 Þá heyrðu þeir hljóð. Einhver rumdi lágt og steig risavöxnum fótum þunglamalega til jarðar. Ron benti — fyrir enda gangs sem lá þeim á vinstri hönd var eitthvað gríðarstórt flykki á hreyfingu í áttina til þeirra. Þeir földu sig í skugga og horfðu á það birtast í tunglskininu. Þetta var hrikaleg sjón. Það var um fimm metrar á hæð — húðin steingrá og líflaus og ofan á risastórum og klunnalegum skrokknum trónaði lítill, sköllóttur haus á stærð við kókoshnetu. Fótleggirnir voru stuttir og digrir eins og trjábolir og fæturnir flatir og hrjúfir. Lyktin sem barst frá því var ólýsanleg. Handleggirnir voru svo langir að trékylfan sem það hélt á dróst eftir gólfinu. Tröllið nam staðar við dyragætt og gægðist inn fyrir. Það hreyfði löng eyrun og virtist brjóta sinn litla heila um eitthvað og hengslaðist síðan inn í herbergið. „Lykillinn er í skránni,“ muldraði Harry. „Við gætum læst það inni.“ „Góð hugmynd,“ sagði Ron taugaóstyrkur. Þeir læddust í átt að opnum dyrunum, þurrir í munninum af hræðslu, og báðu þess heitt og innilega að tröllið væri ekki á leiðinni út aftur. Harry tókst í einu stökki að ná lyklinum, skella hurðinni og læsa henni. „Frábært!“ Sigrihrósandi hlupu þeir af stað til baka eftir ganginum en þegar þeir komu að horninu heyrðu þeir nokkuð sem fékk blóðið til að frjósa í æðum þeirra. Hátt skelfingaróp barst frá herberginu sem þeir voru nýbúnir að læsa. „Ó, nei,“ sagði Ron sem var orðinn fölari en Blóðugi baróninn. „Þetta er stelpnaklósettið,“ stundi Harry. „Hermione!“ sögðu þeir báðir í kór. Þeir áttu engra kosta völ þótt þá langaði síst af öllu að snúa við. Þeir snerust á hæli og þutu til baka að dyrunum, fálmuðu eftir lyklinum í óðagoti og sneru honum í skránni. Harry opnaði dyrnar og þeir hlupu inn fyrir. Hermione Granger hafði hörfað upp að veggnum gegnt dyrunum og hengslast: drattast, fara sér hægt

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=