Töfraskinna

39 „Hvernig tókst trölli að komast hér inn?“ spurði Harry á leiðinni upp stigann. „Ekki spyrja mig. Það er sagt að tröll séu rosalega vitlaus,“ sagði Ron. „Kannski hefur þetta verið hrekkjavökubrandari hjá Peeves.“ Þeir fóru framhjá hópum nemenda sem voru á hlaupum í allar áttir. Þegar þeir tróðu sér gegnum þvögu af ringluðum Hufflepuffnemendum greip Harry skyndilega í handlegg Rons. „Heyrðu — hvað með Hermione?“ „Hvað með hana?“ „Hún veit ekkert af tröllinu.“ Ron beit á vörina. „Allt í lagi,“ sagði hann svo stuttur í spuna. „En það er eins gott að Percy sjái ekki til okkar.“ Þeir beygðu sig niður og smeygðu sér inn í hópinn frá Hufflepuff sem var á leið í hina áttina. Síðan laumuðust þeir inn á auðan hliðargang og flýttu sér í áttina að stelpnaklósettinu. Þeir voru rétt komnir fyrir hornið þegar þeir heyrðu hratt fótatak að baki. „Percy!“ hvíslaði Ron og dró Harry á bak við stóra styttu af flugskrímsli á ganginum. Þegar þeir gægðust fram úr felustaðnum sáu þeir að hér var ekki Percy á ferð heldur Snape. Hann gekk þvert yfir ganginn og hvarf úr augsýn. „Hvað er hann að gera?“ hvíslaði Harry. „Af hverju er hann ekki niðri í kjallarahvelfingunni með hinum kennurunum?“ „Spurðu mig ekki að því.“ Þeir heyrðu fótatak Snapes hverfa í fjarska og læddust hljóðlega eftir ganginum í sömu átt. „Hann er á leiðinni upp á þriðju hæð,“ sagði Harry en Ron lyfti aðvarandi upp hendi. „Finnurðu lyktina?“ Harry þefaði út í loftið og hræðileg ólykt, einhvers konar sambland af táfýlusokkum og illa hirtu almenningsklósetti, fyllti nasir hans.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=