Töfraskinna

38 Hermione. Harry varð litið á hana og hrökk við þegar hann sá að hún var með tárin í augunum. „Ég held að hún hafi heyrt í þér.“ „Hvað með það?“ sagði Ron en virtist dálítið brugðið. „Það fer varla framhjá henni að hún á enga vini.“ Hermione kom ekki í næsta tíma og sást ekki allan síðari hluta dagsins. Þegar Ron og Harry voru á leið í hrekkjavökuveisluna í Stóra salnum heyrðu þeir Parvati Patil segja Lavender vinkonu sinni að Hermione væri grátandi inni á stelpnaklósettinu og vildi fá að vera í friði. Ron varð dálítið vandræðalegur yfir þessu en um leið og þeir komu inn í Stóra salinn sem var allur skreyttur í tilefni hrekkjavökkunnar var Hermione gleymd. Þúsund lifandi leðurblökur flögruðu frá lofti og veggjum og enn fleiri svifu yfir borðunum eins og dökkir skýjabólstrar svo kertaljósin í graskerjunum flöktu. Kvöldverðurinn birtist skyndilega á gullfötum eins og í veislunni fyrsta kvöldið. Harry var að moka kartöflukökum á diskinn sinn þegar Quirrell prófessor kom æðandi inn í salinn. Vefjarhötturinn hallaðist á höfði hans og á andlitinu var skelfingarsvipur. Allir störðu á hann þegar hann hljóp að stól Dumbledores, kastaði sér fram á borðið og sagði með andköfum: „Tröll — það er tröll niðri í kjallarahvelfingunni. Fannst rétt að láta þig vita.“ Síðan steinleið yfir hann. Það varð uppi fótur og fit. Dumbledore varð að skjóta upp nokkrum purpurarauðum aðvörunarblysum úr töfrasprotanum sínum til að fá þögn í salnum. „Umsjónarmenn,“ þrumaði hann. „Farið með skjólstæðinga ykkar upp í svefnsalina strax!“ Percy var í essinu sínu. „Fylgið mér! Fyrsta árs nemar haldið hópinn. Engin ástæða til að óttast tröllið ef þið gerið eins og ég segi! Fylgið mér! Víkið úr vegi. Fyrsta árs nemar eru á leiðinni. Gerið svo vel að færa ykkur. Ég er umsjónarmaður!“ skjólstæðingur: sá sem nýtur verndar einhvers, (hér) sá sem fær hjálp og stuðning frá umsjónarmanni

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=