Töfraskinna

21 eru auðvitað haldnir að minnsta kosti vikulega og svo hittist fólk og borðar saman eða drekkur jurtate, það er mikið í tísku núna … — Í tísku? Hvað er það? Mjöll horfir undrandi á hana en útskýrir síðan þolinmóð: — Sko, stundum er eitt í tísku og stundum annað. Þá vilja allir gera eitthvað eða vera einhvern veginn — til dæmis í útliti. Allir þurfa að vera eins. Og það er hennar hátign sem ræður ferðinni! Til dæmis háraliturinn, drottningin er með ljóst hár og þess vegna vilja allar konurnar vera ljóshærðar. Þá lita þær á sér hárið sem eru ekki með ljóst hár, til dæmis frúin sem ég vinn hjá. Og svo eru það auðvitað fötin, í fyrra komst allt í einu í tísku að hafa pilsasíddina handarbreidd fyrir neðan hné, svo þá þurfti ég að stytta alla kjóla frúarinnar. Nokkrum vikum síðar kom svo drottningin valsandi út í garðinn einn morguninn í skósíðum kjól, svo þá var ekki um annað að ræða en að panta nýja kjóla úr verksmiðjunni og henda öllum hinum! — Þá hafa börnin við Múrinn kannski orðið glöð að fá ný föt, segir Áróra biturlega. — Það er verst að fólkið hérna skuli klæðast svona þunnum fötum, þau duga lítið í vetrarkuldanum fyrir utan Borgina! En hvers vegna er svona heitt hérna innan við borgarmúrana þótt það sé ennþá vetur? Kemur heita loftið úr opunum efst á veggjunum? Mjöll kinkar kolli. — Já, einmitt. Hér er mátulega heitt allt árið — loftið er hitað á veturna og kælt á sumrin! Vélarnar eru í gangi dag og nótt til að hita eða kæla … mér verður oft hugsað heim í þorpið mitt og óska þess þá að amma mín gamla gæti fengið eitthvað af hlýjunni inn til sín þegar kalt er, hún er svo slæm af gigt, blessunin … og hugsaðu þér ef þau gætu kveikt ljós án þess að þurfa að nota kerti! Áróra hugsar til þess sem Glóð sagði um orkuna, hvernig borgarbúar notuðu nær alla orku sem til væri í landinu svo lítið væri eftir fyrir alla hina. Skyldi drottningin, móðir hennar, hugsa út í það? Eða konungurinn, faðir hennar? Nei, nú er henni ekki til setunnar boðið mikið lengur. Hún verður að komast til þeirra.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=