Töfraskinna

20 — Já, ég hef heyrt því hvíslað að til sé staður þar sem fólk felur sig fyrir vörðunum, segir hún. — Margir sem búa utan við Borgina hafa í rauninni samúð með þeim sem andmæla því hvernig landinu er stjórnað en þora ekki að segja neitt sjálfir — ekki upphátt, að minnsta kosti. Flestir eru dauðhræddir við verðina. — Hvað um fólkið hér í Borginni? spyr Áróra. — Hér hlýtur líka að vera til fólk sem vill breyta einhverju, er það ekki? Mjöll hugsar sig aðeins um. — Ég held að flestir hérna vilji ekkert um það vita hvernig lífið er utan við Borgina, svarar hún svo. — Það er miklu þægilegra að hugsa ekki um það. — Hvað hefur fólk eiginlega fyrir stafni hérna? spyr Áróra. — Ég sá verksmiðjurnar fyrir utan og líka býlin og gróðurhúsin sem framleiða matinn. Allt sem notað er hér í Borginni kemur utan frá. Svo er líka þjónustufólk hér inni — eruð það ekki þið sem eldið matinn og þvoið og þrífið? Og klæðið meira að segja fólkið í fötin, eða hvað? Mjöll kímir við. — Frúin getur nú alveg klætt sig sjálf, svona flesta daga, segir hún. — En þegar mikið er um að vera þarf hún hjálp með fötin og hárgreiðsluna. Það er reyndar býsna oft sem eitthvað er um að vera, drottningin hefur ákaflega gaman af að skemmta sér og finnur upp á ýmsu … Drottningin. Áróra finnur ofurlítinn sting í hjartað. — Eins og hverju, til dæmis? spyr hún. — Í kvöld lýkur keppninni um fallegasta hvíta brönugrasið . Það er aldeilis eftirsóknarvert að vinna þá keppni, skal ég segja þér! Það er búið að raða upp fleiri hundruð pottum af brönugrösum í hallarsalnum og í kvöld sker drottningin úr um hvaða blóm er fallegast … Nú, fyrir viku var haldin keppni um fallegasta gæludýrið og þar áður var fegurðarsamkeppni ungbarna og líka keppni í kökuskreytingum. Hvíta súkkulaðikakan með gullduftinu og marsípanrósunum sem frú Lilja bjó til vann þá keppni! Svo eru reglulega haldnir kappleikir í eftirlætisíþróttum konungsins, knattleik og handahlaupum! Dansleikir brönugras: planta af ætt brönugrasa. Til eru sjö íslenskar tegundir en flest brönugrös eru ættuð úr hitabeltinu. Oft kölluð orkídeur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=