Töfraskinna

19 Þegar Mjöll er farin leggur Áróra sig út af í rúmið hennar og nýtur þess að finna þreytuna líða úr líkamanum. Hér er hlýtt og gott og rúmið er sæmilega mjúkt, þótt það jafnist ef til vill ekki á við þægilega, gamla rúmið hennar í Hvolfinu. Það er meira að segja hægt að kveikja og slökkva ljósin að vild. Hér í þessu litla herbergi á Mjöll prýðilegt skjól og athvarf en svo verður hún augljóslega að hlaupa til um leið og bjallan hringir og snúast í kringum fólk sem getur ekki einu sinni kallað hana réttu nafni. Hún þurfti að fara að klæða frúna, sagði hún. Áróra kímir ofurlítið. Hún kunni nú meira að segja að klæða sig sjálf meðan hún var í Hvolfinu, þótt hún kynni ekki margt þá og vissi ennþá minna … Áróra hrekkur upp af værum blundi þegar Mjöll smeygir sér aftur inn fyrir og lokar á eftir sér. — Jæja, nú getum við verið í friði alveg fram á kvöld, segir hún og réttir Áróru stóran disk, hlaðinn ilmandi brauðsnúðum og köldum kjötsneiðum ásamt fullri könnu af köldum og svalandi ávaxtasafa. Áróra tekur hraustlega til matar síns og segir Mjöll alla sögu sína á milli sopanna og matarbitanna. Mjöll fylgist stóreyg og spennt með frásögninni af flóttanum og ferðalaginu og kinkar íbyggin kolli þegar hún heyrir um Leynihvelfinguna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=