Töfraskinna

126 Samar og jojk Samar er samheiti yfir þjóðfélagshópa sem hafa búið í norðurhluta Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og á hluta af Kólaskaga í Rússlandi í þúsundir ára. Þeir eru afkomendur einu upprunalegu þjóðflokkana í Skandinavíu sem vitað er um; hirðingja sem lifðu þar flökkulífi. Í dag hafa flestir Samar sest að meðal annarra Norðurlandabúa og starfa á öllum sviðum mannlífsins. Sumir þeirra starfa við hreindýrabúskap, helstu atvinnugrein Sama. Hreindýrabúskapur er ekki ósvipaður íslenskum sauðfjárbúskap, hreindýrin lifa frjáls í skógum og fjöllum og er síðan safnað í réttir þegar líða tekur á haustið. Áður fyrr bjuggu Samar sunnar í Skandinavíu en áttu síðan undir högg að sækja þegar aðrar þjóðir settust þar að og tóku yfir landsvæðin. Í dag njóta flestir Samar fullra réttinda og í mörgum bæjum í norðri, eins og Jokkmokk í Norður-Svíþjóð, er menningu þeirra gert hátt undir höfði. Hinir samísku þjóðflokkar hafa varðveitt listir sínar, menningu og hefðir. Eitt af því þekktasta úr samískri list er jojk, einstakur söngur sem lýsir stöðum, einstaklingum og tengslum manns og náttúru, stundum með yfirnáttúrulegum skírskotunum. Sumt jojk er ævafornt, það hefur varðveist í munnlegri geymd og sagt er að í því sé að finna uppruna hins norræna seiðs. Í sumum tilfellum er jojkað án orða en í öðrum er um ljóðasöng að ræða, blöndu af ljóði og söng. Jojk getur verið dýrleg ljóðlist en einnig hversdagslegur kveðskapur. Umfjöllunarefnin eru mörg og mismunandi: forfeður, hreindýr, stjörnur, ást og hatur, fjöllin, ísinn, veiðibráð — ljóðasöngur Samanna er til þess gerður að ná betri tengslum við umhverfi sitt. Langt fram á 20. öld var litið hornauga á jojk og sumir gengu það langt að segja að söngvarnir væru frá Satan komnir. En svo er ekki lengur. Þrátt fyrir andstreymið varðveittist jojkið. Það er í fullum blóma enn þann dag í dag og er blandað inn í ýmsar tónlistarstefnur. Einn af þekktari samískum listamönnum heims er söngkonan Mari Boine sem hefur vakið athygli fyrir notkun sína á samískum menningararfi í heimstónlist sinni. Hún jojkar oft í lögunum og syngur einnig um stöðu Sama í dag. Hún vinnur með ljóðsönginn og þróar hann en þannig telja margir að jojkið varðveitist best. Hvernig hefur jojkið varðveist á milli kynslóða? Norrænn seiður, hvað heldur þú að það sé?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=