Töfraskinna
124 Ísbirnir Ísbirnir, eða hvítabirnir, eru öflug rándýr og geta drepið önnur dýr sem eru allt að þrefalt þyngri en þeir sjálfir. Til að mynda hefur sést til þeirra ráðast á og éta fullvaxta rostunga. Að öðru leyti er helsta fæða bjarnanna minni dýr á borð við seli og ef árferðið er erfitt gæða þeir sér á nánast hverju sem er, jafnvel hræjum sem þeir finna. Enda lifa þeir við erfiðar aðstæður í kulda á ísbreiðum við Norðurheimskautið. Bráðnun jökla og hafíss vegna hnattrænnar hlýnunar gerir það að verkum að ísbirnir eiga æ erfiðara með að lifa af í náttúrulegum heimkynnum sínum. Þegar ísinn og snjórinn bráðnar eiga ísbirnir mjög erfitt með að finna æti. Af þessum sökum eru þeir í útrýmingarhættu. Ísbirnir hafa verið tíðir gestir á Íslandi frá örófi alda og er þeirra getið í ýmsum Íslendingasögum. Þá hefur rekið hingað á land með hafís úr norðri en vegna bráðnunar hefur heimsóknum þeirra fækkað í seinni tíð. Nokkrir hafa þó skotið upp kollinum undanfarin ár en ekki hefur reynst unnt að fanga þá lifandi svo hægt væri að flytja þá heim til sín. Ef þeir komast nálægt mannabyggð er voðinn vís. Eftir flakkið yfir hafið eru þeir hungraðir og stórhættulegir, því þótt þeir virðist stórir og klunnalegir geta þeir sannarlega sprett úr spori yfir stuttar vegalengdir og náð allt að 40–50 kílómetra hraða á klukkustund. Fáir gætu því hlaupið af sér ísbirni.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=