Töfraskinna

121 til Víkur á fullorðinsárum og hafa fylgst með Mýrdalsjökli í áratugi, hvort á sinn hátt. Þorgerður segir svo frá: „Það hafa orðið miklar breytingar á jöklinum síðan ég fæddist árið 1960, en ég fór ekki að fylgjast með honum að ráði fyrr en ég flutti í húsið mitt í Vík, tuttugu og tveggja ára gömul. Þar horfi ég á Mýrdalsjökul út um eldhúsgluggann. Ég sé hann gægjast upp á milli tveggja fjalla, svolítið eins og húfu. Stundum er jökullinn hvítur, stundum er hann skellóttur og stundum er hann grár. Mér finnst hann alltaf lang fallegastur á haustin þegar fyrstu snjóarnir koma. Þá er hann skjannahvítur og sléttur. Hann var hinsvegar ljótastur í gosinu úr Eyjafjallajökli. Þá varð hann kolsvartur. Fljótlega eftir að ég flutti í húsið fór ég að taka eftir því að jökullinn skrapp saman. Það var ekkert sem gerðist frá einum degi til annars, heldur hægt og sígandi. Árið 2005 endurnýjaði ég eldhúsgluggann og þá var settur í hann miðjupóstur. Eftir það varð enn greinilegra hvernig jökullinnminnkaði, því þá hafði ég viðmið í glugganum. Jökullinn náði upp undir póstinn þegar nýi glugginn var settur í, en hann hefur lækkað mikið miðað við póstinn og nú er hann kominn langt niður fyrir.“ Grétar gjörþekkir jökulinn og segir hér frá nokkrum af þeim breytingum sem hann hefur orðið var við: „Ég hef flakkað í kringum jökulinn, á honum og yfir hann síðustu tuttugu og sjö ár. Á þeim tíma hef ég orðið var við miklar breytingar á jöklinum, mestar á jaðrinum, þar sem hann hefur bæði hopað mikið og lækkað. Sem dæmi má nefna að inni í Höfðabrekkuafrétt upp af Þakgili féll áður einskonar ísfoss frá jöklinum ofan í gil og til hliðar við hann var samfelld snjóhella. Nú eru hlíðarnar auðar og ísfossinn er nánast horfinn. Upp af Hafursey rétt fyrir austan Vík var fyrir tólf árum hægt að ganga beint inn á jökulinn af heiði sem heitir Moldheiði. Þar er núna dalur og djúpt stöðuvatn þar sem áður var jökull. Það samahefur gersthjáSólheimaskriðjökli. Fyrir tíu árum þurfti að klifra hátt upp þykkan jökulsporðinn til að komast upp á jökulinn. Nú er 45 metra djúpt stöðuvatn við endann á jöklinum, þar sem jökulsporðurinn var áður. Árið 1952 fórst bandaríska her­ flugvélin Neptún á Mýrdalsjökli. Björgunarmenn komust ekki að henni vegna óveðurs og hún hvarf í jökulinn. Árið 1980 skilaði jökullinn braki flugvélarinnar og líkamsleifum áhafnarinnar. Síðan þá hefur jökullinn hopað 400–500 metra þannig að það sem eftir er af brakinu stendur á landi, um 500 metra frá jökuljaðrinum. Þetta eru bara nokkur dæmi, en svona gæti ég haldið lengi áfram.“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=