Töfraskinna

118 Á meðan spannst flókinn hugsanavefur í huga ísbjarnakóngsins og í þeim vef voru fleiri þræðir en hungur og saðning. Það var minningin um litlu stúlkuna Lýru sem hann gaf viðurnefnið Silfurtunga, en hann sá síðast á eftir henni þar sem hún gekk eftir veikbyggðri snjóbrú yfir jökulsprungu í heimalandi hans, Svalbarða. Einnig uppnámið meðal nornanna, sögusagnir um samninga og bandalög og stríð, og svo þessi nýja uppgötvun um tilvist annars heims og staðhæfing nornarinnar um að margir aðrir heimar væru til, og að örlög þeirra væru einhvern veginn samtvinnuð örlögum stúlkunnar. Og svo var það ísinn sem var að bráðna. Hann og þjóð hans lifðu á ísnum, ísinn var heimili þeirra, ísinn var virki þeirra. Allt frá því að þessar víðtæku truflanir á heimskautssvæðinu hófust hafði ísinn verið að hverfa og Jórekur vissi að hann þyrfti að finna ísilagt svæði fyrir ættbálk sinn, því annars væri úti um hann. Lee hafði sagt honum að í suðri væru svo há fjöll að loftbelgur hans kæmist ekki einu sinni yfir þau, og þau væru snævi þakin allt árið. Næsta verkefni hans var að kanna þessi fjöll. En á þessari stundu hafði nokkuð einfaldara hertekið hjarta hans, eitthvað bjart og hart og óbifanlegt: hefnd. Lee Scoresby, sem bjargaði Jóreki úr hættu með loftbelgnum sínum og barðist við hlið hans á norðurslóðum í hans heimi, var dáinn. Jórekur myndi hefna hans. Hold og bein þessa ágæta manns nærðu hann og settu jafnframt í hann óeirð sem hann myndi ekki jafna sig á fyrr en nægu blóði hefði verið úthellt. Sólin var að setjast um það bil sem Jórekur lauk máltíðinni og loftið var tekið að kólna. Þegar hann var búinn að safna saman því sem eftir var í litla hrúgu tók ísbjörninn blómið upp með kjaftinum og lét það falla niður í hrúguna miðja, eins og mannfólkið var vant að gera. Nú hafði álögum nornarinnar verið aflétt: það sem eftir var af líki Lees stóð hverjum sem vildi til boða. Brátt myndi það næra tylft ólíkra lífvera. Svo lagði Jórekur af stað niður brekkuna í áttina aftur til hafsins, í áttina suður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=