Töfraskinna

10 sem var djúp og hljómmikil. Hún brosti innra með sér. Nú var allt orðið gott. – Góða nótt, sagði hún og svaf djúpum og sælum svefni. Þegar Hrafntinna vaknaði var eitthvað undarlegt á seyði. Það var kominn dagur en úti var ekki fullkomlega bjart og ærandi garg barst að utan. Hrafntinna leit út og sá að turnar hallarinnar voru eins og svartir fjaðrahattar, sérhver flötur var þéttsetinn sendikrákum. Þær svifu kringum turnana í uppstreyminu og það heyrðist vart mannsins mál fyrir krunki. Hrafntinna horfði á hirðmenn vopnaða háfum grípa krákurnar, flokka bréfin og setja í bunka sem þeir báru inn til konungs. Hrafntinna fékk sér morgunmat en konungur var hvergi sjáanlegur. – Hann er víst að stýra veröldinni, sagði Þórdís. Þannig leið dagur, vika og önnur vika án þess að hún sæi föður sinn. Hann var alltaf inni á skrifstofu að stjórna. Hverjir ætli hafi sent öll þessi bréf með sendikrákunum? uppstreymi: það að eitthvað streymir upp (t.d. hlýtt loft).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=