Töfraskinna

116 „Faa lávarður,“ sagði ísbjörninn, „já. Góðir bardagamenn. Gæfan fylgi þér.“ Hann sneri sér við, renndi sér hljóðlaust ofan í sjóinn og hóf sundið með taktföstum og þrotlausum sundtökum inn í nýjan heim. * * * * Og nokkru seinna var Jórekur Byrnisson á gangi yfir svartan botngróður og sviðna steina í jaðri skógar sem hafði brunnið til ösku. Sólin skaut sterkum geislum í gegnum reykjarmóðuna en hann lét hitann ekki á sig fá og heldur ekki kolarykið sem sverti hvíta feldinn hans eða mýflugurnar sem leituðu án árangurs að húð til að bíta í. Hann hafði ferðast um langan veg og einhvers staðar á leiðinni fann hann að hann synti yfir í annan heim. Hann tók eftir breytingunni á sjávarbragðinu og lofthitanum, en hann gat ennþá andað að sér loftinu og sjórinn hélt honum á floti, svo hann synti áfram, og nú var sjórinn að baki og hann var næstum kominn til staðarins sem Serafína Pekkala hafði lýst fyrir honum. Hann svipaðist um og beindi svörtum augunum upp á sólgullinn kalksteinsklett fyrir ofan sig. Á milli brennda skógarjaðarsins og fjallanna var stórgrýtt brekka þakin sviðnum og snúnum málmi: burðarbitum og stöngum sem höfðu verið í einhverjum flóknum vélbúnaði. Jórekur Byrnisson virti brakið fyrir sér með augum smiðs, sem og bardagamanns, en hann gat ekki nýtt sér neitt af þessu rusli. Hann risti með gríðarstórri kló í gegnum þá stöngina sem virtist einna heillegust og fannst málmurinn heldur haldlítill svo hann sneri sér frá og leit aftur rannsakandi augum á klettavegginn. Þá kom hann auga á það sem hann leitaði að: þröngan skorning sem hvarf inn í skörðótt gil og rétt framan við mynnið var stór en lágur steinn. Hann klöngraðist jöfnum skrefum í áttina þangað. Smellirnir í þurrum beinum sem brotnuðu undir fótum hans bergmáluðu í kyrrðinni, því á þessum stað höfðu margir menn fallið og orðið

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=