Töfraskinna

115 Þá lýsti hún því sem hún sá þegar hún svaraði kalli Lees. „Ég fór með þulu sem varnar því að líkami hans rotni,“ sagði hún. „Áhrifin endast þangað til þú sérð hann, ef þig langar til þess. En þetta angrar mig, Jórekur konungur. Allt sem er að gerast angrar mig en þetta mest af öllu.“ „Hvar er stúlkan?“ „Ég skildi hana eftir í umsjá systra minna þegar ég þurfti að sinna kalli Lees.“ „Í sama heimi?“ „Já, þeim sama.“ „Hvernig kemst ég þangað?“ Hún útskýrði það. Jórekur Byrnisson hlustaði án þess að sýna nokkur svipbrigði og sagði svo: „Ég ætla að finna Lee Scoresby. Og síðan verð ég að halda í suður.“ „Suður?“ „Ísinn er horfinn af þessum slóðum. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, Serafína Pekkala. Ég er búinn að taka skip á leigu.“ Litlu refirnir þrír höfðu beðið þolinmóðir. Tveir þeirra lágu með höfuðið fram á fætur sér og fylgdust með en sá þriðji sat enn og hlustaði á samræðurnar. Refirnir á heimskautssvæðinu voru skransafnarar í eðli sínu og höfðu sankað að sér einhverri þekkingu á tungumáli, en lögun heilans í þeim olli því að þeir gátu aðeins skilið setningar í nútíð. Flest af því sem Jóreki og Serafínu fór á milli var í eyrum þeirra óskiljanlegur orðaflaumur. Ekki nóg með það, þegar þau töluðu var mest af því sem þau sögðu bara lygi, svo það skipti ekki máli þótt þeir endurtækju orð þeirra: enginn gæti greint á milli hvað var satt og hvað ekki, þótt hinar auðtrúa klettavættir tryðu flestu sem sagt var og lærðu ekkert þótt þær yrðu fyrir vonbrigðum. Bæði birnir og nornir voru vön því að einhver hrifsaði glefsur úr samtölum þeirra eins og kjötinu sem þau höfðu leift. „Og þú, Serafína Pekkala?“ hélt Jórekur áfram máli sínu. „Hvað ætlar þú að gera núna?“ „Ég ætla mér að finna sígyptana,“ sagði hún. „Ég held að þeirra sé þörf.“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=