Þriðji Smellur

60 Fræðitexti Dreymir þig? Þegar við sofum er heilinn enn að störfum. Hann sefur ekki. Þess vegna dreymir okkur og oft snúast draumar okkar um eitthvað sem við vorum að gera eða hugsa um daginn áður. Vísindamenn eru ekki alveg sammála um af hverju okkur dreymir. Þeir hafa fundið út að svefn skiptist annars vegar í svokallaðan NREM-svefn, sem áfram skiptist í 4 stig eftir því hversu djúpt við sofum. Og hins vegar í REM-svefn, sem hefur fengið íslensku heitin bliksvefn og draumsvefn. Rannsóknir sýna fram á að heilavirkni er mikil í bliksvefni og að í honum styrkist minni okkar og nýjar minningar tengjast við eldri. Í bliksvefni eru draumar líka algengir. Ef við vöknum í miðjum bliksvefni eða fljótlega eftir hann þá munum við drauma okkar. Í mörgum bókmenntaverkum og kvikmyndum skipta draumar miklu máli. Til dæmis er oft minnst á drauma í Íslendingasögunum og flest ykkar hafið lesið eða horft á mynd unna upp úr bókinni Jólaævintýri Dickens . Í þeirri sögu segir frá forríkum nirfli sem heitir Ebeneser Scrooge, stundum kallaður Skröggur í íslenskum þýðingum. Hann þolir ekki jólin og finnst allt umstangið í kringum þau vera húmbúkk. En á jólanótt dreymir hann þrjá anda, úr fortíð, nútíð og framtíð, sem kíkja í heimsókn til hans. Þeir fá hann til að sjá jólin í nýju ljósi og þegar hann vaknar á jóladag hefur hann fundið jólagleðina í hjarta sínu. Draumar koma líka við sögu í trúarbrögðum. Í Biblíunni dreymir Jósef draum þar sem engill útskýrir hvernig María varð ólétt, hvaða hlutverk barnið muni síðar hafa og að barnið eigi að heita Jesú. Í íslam er talað um þrjár draumsýnir: frá Allah, frá englum og frá Iblis. Í íslam er einnig sagt að draumur sem ekki hafi verið túlkaður eða ráðið í sé eins og bréf sem á eftir að opna. Í hindúatrú er litið á drauma sem yfirnáttúrulega atburði. Í þeim ferðast sálin til himna til að eiga samskipti við guðdómleikann. Í ásatrú dreymir Baldur draum. Æsir trúðu því að draumar væru fyrirboðar um hvað ætti eftir að gerast og draumur Baldurs olli ásunum áhyggjum. Reyndu á þig! Áður en þú lest textann skalt þú lesa allar spurningarnar. Þegar þú lest textann strikar þú undir lykilorð sem hjálpa þér að finna svarið við spurningunum. Málshættir sem tengjast draumum eru nokkrir. Til dæmis: Svo rætist hver draumur sem hann er ráðinn. Von er draumur hins vakandi manns. Hryggan mann dreymir sjaldan gleðilega drauma. Oft er ljótur draumur fyrir litlu. Hver er síðasti draumur sem þú manst eftir að þig hafi dreymt? | 2829 | Þriðji smellur – lausnir | © Menntamálastofnun 2019 |

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=