Mikilvægt er að samvinna og samræmd vinnubrögð í notkun TMT ríki innan stofnunar sem barnið eða einstaklingurinn sækir, hvort heldur það er leik-, grunn- eða framhaldsskóli eða vinnustaður. Aðstæður á hverjum stað eru misjafnar og því þarf að skipuleggja og framkvæma slíka samvinnu eins og best verður við komið í hverju tilfelli. Samvinnan getur miðast við stofnunina í heild, einskorðast við tiltekna deild eða deildir eða verið á milli deilda. Brýnast er að tryggja að ábyrgðin deilist á sem flesta og að skilgreina vel hlutverk hvers og eins. Setja þarf sameiginleg markmið og samræma áherslur í kennslu og notkun táknanna. Helst ættu allir, sem hlut eiga að máli, að vera með í að ákveða táknin sem leggja á áherslu á hverju sinni og fylgjast með hvort stígandi haldist í notkun þeirra. Mikils er um vert að finna samstarfinu traustan farveg, halda t.d. sérstaka TMT fundi eða festa hluta af almennum skipulagsfundum fyrir TMT. Slíkan tíma má nota til að rifja upp tákn og bæta nýjum við. Skemmtileg hugmynd til að virkja og viðhalda áhuga manna getur til dæmis verið að draga setningu úr hatti og tákna hana. Einnig má syngja eitt eða tvö lög og tákna um leið. Algengt er að velja eitt tákn, svokallað tákn vikunnar, sem allir á staðnum eiga að læra. Þá er fengist við táknið á fjölbreyttan hátt og séð til þess að foreldrar og aðrir sem tengjast staðnum fylgist með. Þetta er góð leið til að gera TMT sýnilegra en ella og skapa umræður. Tákn vikunnar er auðvitað ekki eina táknið sem kennt er heldur er kastljósinu beint að því þá stundina. Skipuleg og samræmd vinnubrögð, ásamt skapandi og líflegu starfi, tryggja að TMT verði eðlilegur þáttur í daglegu lífi, leik og starfi. Lokaorð Táknin í bókinni eru góður grunnur til að byggja á en mikilvægt er að laga þau að þörfum hvers notanda. Verum óhrædd að sýna sveigjanleika og nota hugmyndaflugið til að mynda ný tákn. Ef barnið hefur sjálft búið til tákn, „persónuleg tákn“, þá virðum við það. Við megum aldrei gleyma því að meginmarkmiðið með TMT er að auðvelda barninu tjáskipti eins og kostur er. Við reynum að auka tjáskiptahæfni barnsins með því að bæta við það sem barnið þegar getur. Við fögnum hverri tilraun barnsins til að tjá sig og reynum eftir bestu getu að ýta undir frumkvæði þess. Verum ekki of fljót að grípa inn í, gefum barninu tíma, tölum það ekki í kaf. Ef óskað er eftir nánari upplýsingum eða ráðgjöf um TMT má m.a. leita til Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins í Kópavogi, sérhæfðra talmeinafræðinga, sérfræðinga hjá ráðgjafarþjónustum sveitarfélaga og Öskjuhlíðarskóla í Reykjvík. 17
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=