9 Mikilvægt er að allir sem umgangast barnið taki virkan þátt í að nota TMT. Æskilegt er að táknið lærist við eðlilegar aðstæður. Sum byrja að læra TMT strax á fyrsta aldursári og geta nýtt sér það löngu áður en þau segja sitt fyrsta orð. Hið sama má segja um mörg önnur börn sem eiga í erfiðleikum með tal og tjáskipti. Best er að markviss þjálfun hefjist á barnsaldri. Þjálfun sem hefst síðar á lífsleiðinni getur einnig skilað góðum árangri, jafnvel þó komið sé fram á fullorðinsár. Máltækið „betra seint en aldrei“ á því sannarlega við hér. Hvar og hvernig er best að byrja að kenna TMT? Ef byrjað er að kenna barni TMT á fyrsta eða öðru aldursári, fer kennslan aðallega fram heima. Þegar barnið eldist bætast aðrir staðir við, svo sem dagvist, leikskóli, grunnskóli og jafnvel vinnustaður. Í byrjun sjá foreldrarnir að mestu um kennsluna. Mikilvægt er þó að öll fjölskyldan taki virkan þátt í henni, sé dugleg að nota táknin og hjálpist að við að gera TMT að eðlilegum þætti í daglegu lífi barnsins. Þegar talað er um fjölskylduna er átt við alla sem umgangast barnið, svo sem systkini, frændfólk, afa og ömmu og vinafólk. Það er örvandi fyrir bæði barn og foreldra að sjá sem flesta í umhverfinu nota tákn. Þá skiptir ekki meginmáli fjöldi táknanna sem notaður er heldur viðleitnin og jákvætt viðhorf. Börnin læra tákn í daglegu umhverfi sínu á sama hátt og þau læra að tala. Fólk táknar og talar um það sem því liggur á hjarta hvort heldur er heima eða heiman, t.d. í pössun hjá afa og ömmu. Þannig læra börnin táknin við eðlilegar aðstæður og að nota þau á mismunandi stöðum og með mismunandi persónum. Val tákna Aldur, áhugi og þroski barnsins ræður mestu um það hvaða tákn eru tekin fyrir. Mikilvægt er í byrjun að reyna að átta sig á hvaða tákn það eru sem barnið hefur mest gagn af og hvaða tákn gætu vakið áhuga þess. Einnig verða táknin að vera í samræmi við reynsluheim barnsins. Hreyfifærni þess hefur jafnframt áhrif á val tákna og mikilvægt er að einfalda og laga táknin að hverju barni. Barnið lærir táknin smám saman við að sjá þau aftur og aftur. Æskilegt er að þau lærist við eðlilegar aðstæður og tengist athöfnum daglegs lífs. Að borða, baða sig og sofa eru dæmi um athafnir sem gott er að byrja á að tákna. Sumar athafnirnar eru endurteknar oft á dag og táknin því líka ef þess er gætt að nota þau.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=