Heimur í hendi - Sveitin

6 Íslenski hesturinn Hesturinn hefur alltaf haft sérstöðu hjá íslensku þjóðinni. Landsmenn fengu mat og föt af sauðfé og nautgripum en hesturinn var auk þess ómissandi í daglegu lífi. Án hans hefði Ísland verið óbyggilegt. Hann var notaður til ferða- laga yfir fjöll og dali, óbrúaðar ár og læki. Hann var einnig notaður til flutninga, dráttar, við vígaferli og íþróttir. Á víkingatímum var siður á Norðurlöndunum að etja hestum saman eins og gert er með hana í hanaati. Hér á landi virðist hestaat eða „hestaþing” hafa verið vinsælar skemmtanir. Í Njálssögu er sagt frá hestaþingum og voru hestarnir sem kepptu kallaðir víghestar. Gunnar á Hlíðarenda átti góðan víghest en fella þurfti gripinn þegar hann missti annað augað í hestaati á Þingvöllum. Reyndu að ímynda þér hvernig það var að ferðast um á Íslandi áður en vegir voru lagðir og brýr byggðar yfir vatnsmikil fljót eða beljandi ár. „En heimilishesturinn, sú skepna sem frægðarlaust bar bagga hversdagsins, var vinur barna og félagi fjölskyldunnar, hann á mesta sögu…Hann var stundum latur og daufur að hafa sig af stað, en hann skilaði öllu heilu og stanzaði, ef einhver datt af baki. Hann bar heim heyið og gekk varlega undir gömlum konum, sem brugðu sér í orlof af bæ. Mæður reiddu ungbörn sín á honum til kirkju, og á honum var kistan flutt síðasta spölinn. Hann var látinn flytja ljósmóðurina, og læknirinn reið honum gjarnan heilar þingmannaleiðir. Þannig var hann ætíð vitni að upphafi og endi hverrar kynslóðar, og sá hefur mikils misst, sem ekki hefur átt hann að félaga og vin.“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=