Heimur í hendi - Sveitin

3 Á sauðburðarvakt Ég hrökk upp með andfælum þegar kötturinn stökk upp í rúmið mitt og nuddaði sér upp við mig. Ég leit á símann. Æ, nei. Klukkan var að verða hálf sjö og ég átti að vera löngu farin á sauðburðarvaktina. Ég hentist í fötin og stökk út. Veðrið var hryssingslegt og töluvert frost. Það var eins og mig grunaði. Ær voru bornar á víð og dreif um fjárhúsin. Allt í einu tók ég eftir haus á lambi sem stóð aftan úr einni ánni. Hann var orðinn mjög bólginn og tungan í lambinu hafði þrýst út um munninn og var orðin tvöföld. Ég varð að ná því áður en það hengdist. Þetta var greinilega mjög stórt lamb. Þegar ég þreifaði meðfram hausnum fann ég klauf á öðrum framfætinum. Ég vissi að ekki mátti toga í höfuðið því þá gæti lambið farið úr hálsliðnum. Það var heldur ekki hægt að ýta höfðinu inn aftur en ég varð með einhverju móti að ná fætinum. Ég sótti spotta í vasann og kappmellaði utan um fremstu kjúkuna á fætinum. Það dugði til að ná honum út. Lambið var orðið mjög þurrt og því enn erfiðara að ná því. Ég tróð hendinni inn í fæðingarveginn meðfram lambinu og nú kom sér vel að vera handnett. Pabbi var kominn og bað ég hann að hendast eftir burðargelinu. Þegar ég hafði sprautað geli vel inn meðfram lambinu tók pabbi við og þurfti hann að nota sína ítrustu krafta til að draga lambið frá ánni. Eftir nokkrar kaldar vatnsgusur á haus- inn hristi það sig og jarmaði skringilega. „Það jafnar sig“ sagði pabbi „komdu svolítilli broddmjólk ofan í það. Það fer ekki á spena strax með tunguna svona bólgna.“ Ég sótti magaslönguna og mjólkaði ána.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=