Heimur í hendi - Sveitin

Sláttuvélar geta verið rúmlega 4 m breiðar. Stundum eru fleiri en ein slátturvél tengd við öflugustu dráttarvélarnar. Heyþyrlur þyrla heyinu. Það er gert til að þurrka það. Stundum er heyið alþurrkað t.d. í þurrbagga, stundum er það hálfþurrkað eða lítið þurrkað t.d. í rúllur eða ekkert þurrkað í vothey. Rakstrarvél rakar heyinu saman í garða áður en heyið er rúllað með rúllubindivélum, bundið í bagga eða tekið með heyhleðsluvagni. Rúllubindivél bindur heyið í rúllur. Þeim er svo pakkað í plast með pökkunarvél. Mikilvægt er að ekki komi gat á plastið því þá getur heyið skemmst. Sumar dýrategundir eru viðkvæmar fyrir myglu og geta fengið fóðureitrun ef þær éta skemmt hey. Rúllusamstæða er vél sem býr rúllurnar til og pakkar þeim líka í plast. Hún sparar mannskap, vinnu og vélar. Einu sinni keypti séra Hálfdan kölska til að slá allan völlinn á Felli á einni nóttu. Átti kölski að vera búinn að því á miðjum morgni, en völlurinn er hér um 24 dagsláttur. Lofaði séra Hálfdan að gefa kölska sjálfan sig að launum ef hann gæti þetta, en yrði hann ekki búinn með allan völlinn átti hann að verða af kaupinu. Nú fer kölski að slá völlinn um háttatíma. Hefir prestur gætur á honum og þykir slátturinn ganga undra fljótt. Fer þá prestur út í kirkju og tekur þar Davíðssaltara og fer með út á tún og leggur á þúfu eina. Síðan fer prestur inn. Um miðjan morgun fer prestur að hyggja að kölska. Er hann þá búinn með allt túnið nema þúfuna sem saltarinn lá á. Var hann að smáskjótast að þúfunni og höggva í hana, en hrökk jafnótt frá. Gerði þá prestur honum vart um sig og varð nú kölski af kaupinu. 19 Sláttuvél Heyþyrla Rúllusamstæða

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=