Heimur í hendi - Sveitin

13 Að leita uppi Eitil og hinar kindurnar, þess var í dag enginn kostur. Válegur verkahringur hans var þrengri en svo. Hér var um það eitt að tefla að forða lífi sínu. Frostið nísti hann gegnum votar flíkurnar, kófið var í þann veginn að kæfa hann, þar eð skeggið fraus saman fyrir vitum hans. Hann tók upp vasahnífinn, sargaði það af sér – það var eina leiðin til að losa sig við klakaskelina. Hvernig þeir Leó römbuðu á jarðholuna gæti orðið torskýrt mál. Benedikt hafði aðeins óljósa hugmynd um það – enda var það Leó sem allt í einu tók að krafsa á ólíklegum stað. Benedikt lagðist á fjóra fætur , rótaði þangað til hann fann hlemminn, losaði um hann, og ofan komust þeir – á endanum hólpnir. Benedikt ætlaði að láta það verða sitt fyrsta verk að kveikja á tólgarkertinu og prímusnum, en vitanlega höfðu eldspýturnar vöknað, það kviknaði ekki á þeim. Eftir að hafa skipt um ullartreyju stakk hann stokknum inn á sig nakinn, smádott- aði þar sem hann var niður kominn, tannaði í sig ögn af freðnu kjöti með brauði og smjöri, en var of þurr í kverkunum, átti örðugt með að kyngja matnum, blundaði á ný, biðvanur. Loks voru eldspýturnar orðnar þurrar. Benedikt kveikti á kertinu og senn fór að sjóða á prímusnum. Hvað kaffi er, það veit sá einn er hefur sopið það í holu neðanjarðar í þrjátíu stiga frosti upp á reginöræfum með fjöll og fárviðri allt um kring sig. Og nú gat leitarmaðurinn meira að segja þurrkað garmana sína. Á meðan þeir Leó átu lyst sína og Benedikt inn í milli dreypti á kaffiboll- anum kannaði hann birgðir sínar. Kjötið var senn á þrotum, engin ósköp af brauðinu en drjúgt með smjör, fáeinir sykurmolar, en síðustu kaffilögg- ina var hann að sötra einmitt þessa stundina. Þannig var ástatt á bænum þeim. Og á morgun mánudagur – og hinn daginn aðfangadagskvöld. Úr Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=