Heimur í hendi - Sveitin

Íslensku nautgripirnir Fyrstu aldirnar eftir landnámið voru nautgripir mjög margir í hlutfalli við sauðfé. Húðirnar voru m.a. notaðar í fatnað, reiðtygi og handrit. Gripirnir gengu úti allt árið og höfðu skjól af skóginum sem hér var. Stórir hópar gengu þá lausir til heiða á sumrin. Sá sem fór um héruð gat því átt von á að mæta nautgripahjörð á beit. Naut gátu orðið viðskotaill og hættuleg. Nú er lausaganga stórgripa þ.e. hesta og nautgripa, bönnuð með lögum. Nautgriparækt hefur tekið miklum framförum. Nautgripir eru stærri en áður. Árið 1928 voru kýr að meðaltali 338 kg. Sextíu árum seinna var meðaltalið komið í 425 kg. Eitt sinn bjuggu ung hjón í Vopnafirði. Þau þurftu langt að sækja til heyskapar. Sumar eitt áttu þau allmikið hey á engjum. Búið var að þurrka heyið og setja upp í sátur. Daginn eftir skyldi binda heyið og flytja heim á hestum. Fóru þau snemma dags af stað með allt sem til þurfti. Bóndinn flutti heyið til bæjar en konan varð eftir að raka dreifar og setja heyið á reipin fyrir næstu ferð. Hjónin áttu lítið barn sem þau höfðu með sér. Bjó móðirin um barnið við enda einnar sátunnar. Allt í einu kemur nautaflokkur vaðandi ofan af heiðinni og tekur að ólmast í heysátunum. Á undan hópnum fer stór boli; ræðst hann á hverja sátuna eftir aðra þar til hann kemur að sátunni, sem barnið sefur undir. Grípur konan orfið og hleypur að nautinu og heggur ljánum ofan í hálsinn á honum. Fékk nautið mikið svöðusár og fóru hálstaugarnar í sundur þannig að hausinn lafði niður. Rann þá allur móður af bola og rölti hann á eftir hinum nautunum. Þegar bóndi kom aftur var konan búin að reka öll nautin burtu með orfið í höndunum. Ímyndaðu þér að þú sért að ganga um óbyggðir Íslands og þú mætir stórum hópi mannýgra nauta. Hvað myndir þú gera? 8

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=