SIGRÚN ELDJÁRN SVAÐILFÖR Í BERJAMÓ
SVAÐILFÖR Í BERJAMÓ SIGRÚN ELDJÁRN
SVAÐILFÖR Í BERJAMÓ ISBN 978-9979-0-3018-8 Hljóðbók má hlaða niður af vefsíðunni www.mms.is ©2010 texti og myndir: Sigrún Eldjárn Umbrot og kápuhönnun: Sigrún Eldjárn Ritstjóri: Sylvía Guðmundsdóttir 1. útgáfa 2011 önnur prentun 2015 þriðja prentun 2023 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Prentvinnsla: Prentmet Oddi ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja
EFNISYFIRLIT MEÐ FÖTU Á HAUSNUM....... 5 SPÖRÐ .. . . . . . . . . . . . . . . . . . . 10 LÆKURINN .. . . . . . . . . . . . . . . . 13 BLÓÐ .. . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 16 GLAMPI ................... 21 FATAN FULL!................ 26 HRÚTUR .. . . . . . . . . . . . . . . . . . 29 SLÓÐ ..................... 32 MIKKI MÚS .. . . . . . . . . . . . . . . . 37 KARLAR .................. 41 SÍMINN.................... 45 INNI Í BREKKUNNI............ 48 BER MEÐ RJÓMA............ 53
Förum í berjamó!
5 MEÐ FÖTU Á HAUSNUM Þegar Ævar og Una lögðu af stað í berjamó þennan sólskinsdag höfðu þau ekki hugmynd um hvað beið þeirra. Ef þau hefðu vitað það hefðu þau kannski hætt við allt saman. En þau voru alveg grunlaus og í mjög góðu skapi. Veðrið var frábært og þau langaði sjúklega mikið í bláber með rjóma. Þau fundu sér því fötur til að tína berin í og héldu svo af stað.
Una söng og trallaði og sveiflaði fötunni í kringum sig. Ævar setti sína fötu á hausinn svo hann sá ekkert hvert hann var að fara. Una þurfti að taka í höndina á honum og teyma hann áfram. Honum fannst það alveg ágætt. Þegar þau voru komin smáspöl upp í brekkuna heyrðu þau hróp og köll að baki sér. Þarna kom þá Ási, litli bróðir Unu, á harðaspretti á eftir þeim og var líka með berjafötu. Hann ætlaði greinilega ekki að missa af neinu. 6
7
En fatan hans Ása var ekki tóm. Hann hafði troðið bangsanum sínum kirfilega ofan í hana. – Við skulum fara alveg þarna upp undir klettana. Þar eru brattar brekkur með frábæru lyngi. Það er oftast hellingur af berjum þar, segir Una móð og másandi. Þau príla áfram upp brekkurnar og verða heit og sveitt í sólskininu. – Af hverju heita ber ber? spyr Ási þegar þau stansa til að kasta mæðinni. Er það kannski af því að þau eru ber? Sko allsber? 8
9 Ævar og Una flissa. Þeim finnst Ási rosalega vitlaus. En hann er nú líka bara fimm ára. Þau eru aftur á móti orðin unglingar, bæði fjórtán ára gömul. – Af hverju eruð þið að hlæja? spyr Ási súr á svip. Þetta er alvarlegt mál!
10 SPÖRÐ – Ég er búinn að fylla mína! hrópar Ási sigri hrósandi. Hann heldur fötunni sinni hátt á loft. – Nehei, það getur nú ekki verið! segir Una. Hennar fata er ekki nema hálffull enn þá. – Má ég sjá? Sko, vissi ég ekki! Sjáðu, það er hellingur af lambaspörðum saman við berin. Oj, bara! Þú verður strax að hreinsa þau öll úr. Þegar þú ert búinn að því þá verður fatan þín í mesta lagi hálf! Una hlær að Ása. Svo hristir hún höfuðið og drífur sig aftur á þúfuna sína. Þar er krökkt af berjum og hún ætlar sko að verða fyrst til að fylla!
11 Ási starir vonsvikinn ofan í berjafötuna. Lambaspörð! Á hann að trúa því að hann sé búinn að hanga hér lengst uppi í fjalli hálfan daginn að tína kindaskít í fötu? Kúk! Hann sturtar öllu úr fötunni sinni. Bæði berjum og kúk. Hann nennir þessu ekki lengur. Honum finnst leiðinlegt að tína ber, hann man það núna. Þau eru ekki einu sinni góð á bragðið!
12 Ási svipast um eftir Ævari. Hann er hvergi sjáanlegur. Hvar getur hann eiginlega verið? Ævar á heima í borginni. Núna er hann í heimsókn hjá þeim systkinunum í sveitinni. En bráðum byrjar skólinn og þá fer hann heim til sín. Ási lætur bangsann aftur ofan í fötuna. Hann skilur Unu eftir í lautinni og fer að leita að Ævari. Hann þarf að vara hann við þessu með kindakúkinn. Það er ekkert víst að þeir sem koma úr borginni þekki í sundur lambaspörð og ber.
LÆKURINN Ævar er ekki kominn með neitt sérstaklega mikið af berjum í sína fötu. Honum hefur ekki tekist að finna rétta staðinn enn þá. En þarna hinum megin við lækinn sýnast honum vera fínar brekkur. Ævar tekur tilhlaup og stekkur léttilega yfir lækinn. Hann er góður í langstökki.
14 Jú, þetta var rétt. Hérna megin er fullt af æðislegum berjum. Þegar hann hefur tínt nokkra stund sér hann enn þá betri stað aðeins lengra í burtu. Þangað fer hann og tínir og tínir. Með þessu áframhaldi verður hann örugglega fyrstur að fylla sína fötu. Nú kemur Ási loks auga á Ævar og hraðar sér í áttina til hans. En þegar hann kemur að læknum líst honum ekki á blikuna. Hvernig í ósköpunum á hann að komast yfir? Hann er ekki með nærri því eins langar lappir og Ævar. Ási hrópar og kallar en niðurinn í læknum yfirgnæfir rödd hans.
15 Ævar heyrir ekki bofs. Hann þokast auk þess stöðugt lengra og lengra í burtu. Ási fer spölkorn upp með læknum og finnur loks stað þar sem hann getur komist yfir án þess að blotna. Fyrst smellir hann kossi á bangsa sinn og hendir honum svo í berjafötunni yfir lækinn. Fatan flýgur hátt upp í loftið og lendir fagurlega á hinum bakkanum. En á miðri leið losnar bangsi úr fötunni. Ási rekur upp skaðræðisóp þegar hann sér vesalings greyið þeytast upp í loftið, hringsnúast á leiðinni niður aftur og skella svo beint ofan í lækinn. Þar hrifsar straumurinn hann undir eins og þýtur með hann niður hlíðina.
16 BLÓÐ Ási tekur undir sig stökk og kemst með naumindum yfir á stóran mosavaxinn stein í miðjum læknum. Það munar litlu að hann detti ofan í og fari sömu leið og bangsi. En hann baðar út handleggjunum og tekst að ná jafnvæginu. Hann horfir niður eftir læknum og sér bangsann sinn fjarlægjast hratt. Þá stekkur hann af steininum og yfir á bakkann hinum megin. Þar kútveltist hann í grasinu.
17 Ási rekur ennið í einn stein og hnéð í annan áður en hann kemst á fætur aftur. Það kemur gat á buxurnar og líka á sjálft hnéð. Hann logsvíður og það glittir í rautt gegnum gatið. Þegar hann þuklar á enninu á sér kemur blóð á fingurna. Hann er líka með sprungna vör. En Ási harkar af sér. Það þarf að bjarga bangsa! Hann sýgur upp í nefið og þurrkar eitt lítið tár af vanganum. Svo tekur hann á sprett niður með læknum. Æ, æ!
18 Bangsi flýtur eins og korktappi og hendist til og frá í straumnum. Að endingu stöðvast hann á grein sem slútir af bakkanum og út í lækinn. Þar situr hann fastur. Ási flýtir sér eins og hann getur til að ná þangað niður eftir áður en straumurinn losar bangsann aftur af greininni. Hann kastar sér á magann og teygir sig eftir honum. Nú er hann alveg að ná honum. Já … já! Sjúkk maður, það tókst!
19
20 – Þarna munaði mjóu, elsku litli bangsinn minn! Þú hefðir getað lent alla leið út í ánni og farið í stóra fossinn! Þá hefðirðu nú ekki þurft að kemba hærurnar! Ási hefur oft heyrt afa sinn segja þetta með hærurnar. Hann veit nú ekki alveg nákvæmlega hvað það þýðir. En það hljómar að minnsta kosti vel! Þegar Ási hefur kreist mesta vatnið úr bangsa fer hann að líta í kringum sig. Hvar eru hinir krakkarnir? Nú er hann kominn langt í burtu frá þeim! Hann sér hvorki grilla í Unu né Ævar. Ohh, hvað þessir unglingar geta verið erfiðir! Ási er dauðuppgefinn og hlammar sér ofan í mosavaxna laut við lækinn. Best að hvíla sig ofurlitla stund áður en hann leggur aftur af stað upp brekkuna í leit að krökkunum.
21 GLAMPI Nú gengur Ævari svo sannarlega vel að tína ber. Það hækkar fljótt í fötunni hjá honum. Ótrúlega góður staður sem hann fann. Fullt af safaríkum, bústnum berjum. Og svo eru þau gómsæt. Hann tínir ekki bara í fötuna heldur líka upp í sig. En hann hefur ekki hugmynd um hvernig hann er orðinn útlits. Ef hann liti í spegil núna sæi hann að bæði varir, tunga og tennur eru orðin hressilega berjablá. Bláminn nær út á kinnarnar og meira að segja er ein klessa á nefinu!
22 En það er enginn spegill í berjamó. Eða hvað? Bíddu við! Hvað er nú þarna? Ævar sér glampa á eitthvað djúpt inni í gróðrinum í brekkunni. Hvað í ósköpunum getur það verið? Þetta er brött brekka. Hún er næstum eins og veggur. Ævar hikar en stingur svo hendinni inn í bláberjalyngið og snertir það sem glampar þar á. Hann vill vita hvað þetta getur verið.
23 Það er hart viðkomu. Ævar tekur utan um hlutinn og reynir að toga hann út úr gróðrinum. Hann er alveg blýfastur. Ævar þuklar betur á hlutnum. Þetta er eins og hurðarhúnn í laginu. En furðulegur staður fyrir hurðarhún. En þar sem er hurðarhúnn þar er líka oftast hurð. Ævar rífur lyngið frá. Svei mér þá! Það er hurð hérna í miðri brekkunni. Ævar er borgarbarn og ekkert vel kunnugur í sveitum landsins. Kannski eru svona hurðir í brekkum úti um allt. En til hvers eru þær þá? Hann ýtir húninum niður á við. Það heyrist smellur og síðan pínulítið ískur.
24 Svo opnast dyr inn í brekkuna. Ævar opnar betur og kíkir hikandi inn. Þarna er svartamyrkur. Forvitnin rekur hann áfram og hann gengur inn. Augun venjast smám saman myrkrinu og hann sér að hann er staddur í stórum helli. Lengra inni í hellinum er svolítil ljósskíma. Hann fikrar sig þangað. Þá sér hann tvo menn. Hann sér líka fullt af kössum og margar, margar flöskur og brúsa! Ævar verður hræddur. Þetta lítur ekki vel út. Hann snýst á hæli og hraðar sér aftur að dyrunum. Hratt fótatak nálgast hann innan úr hellinum.
26 FATAN FULL! Una er búin að fylla fötuna sína af stórum og fallegum berjum. Þar eru bæði bláber og aðalbláber. Hún hefur ekki borðað eitt einasta. Þau hafa öll farið í fötuna. En nú kemst heldur ekki meira í hana og Una stingur því nokkrum berjum upp í sig. Helst vill hún þó komast fljótt heim og fá rjóma með. Mmmm! Það er langbest. – Strákar! kallar hún. Búin að fylla!
27 – Við skulum koma heim núna! Þetta er orðið alveg nóg og ég er orðin svo svöng. Orð hennar bergmála í fjallshlíðunum. Hún leggur við hlustir en fær ekkert svar. Skrítið! Hvar geta þeir verið? Una sér fallega blómabreiðu og þar sest hún niður. Hún ætlar að flétta sér krans á meðan hún bíður eftir strákunum. Ekki líður á löngu þar til Una er komin með þennan fína blómakrans á höfuðið. Enn bólar hvorki á Ævari né Ása.
28 Þá leggur hún af stað með fötuna niður brekkuna og svipast um eftir þeim á leiðinni. Hún er þyrst og ákveður að fá sér vatnssopa úr læknum. Una krýpur niður, stingur kúptum lófanum ofan í vatnið og sýpur á. Þá sér hún allt í einu rauða berjafötu sem liggur á hliðinni á hinum bakkanum. Bíddu nú við! Var Ási ekki með rauða fötu. Jú, þetta hlýtur að vera fatan hans. En hvar er strákurinn sjálfur?
29 HRÚTUR Ási liggur steinsofandi með mjúkan mosakodda undir höfðinu. Hann hefur ekki hugmynd um að við hliðina á honum stendur stór og stæðilegur hrútur. Hann er með mikil og fagurlega snúin horn. Hrúturinn jórtrar. Hann hefur bitið gras og lyng í allan dag og auk þess fengið sér bæði ber og blóm til bragðbætis. Nú langar hann til að leika sér dálítið. Til dæmis væri gaman að stangast svolítið á við annan hrút. Vandinn er sá að hér er enginn annar hrútur. Bara þetta litla grey sem liggur þarna með rennblautt tuskudýr í fanginu.
30 Hrúturinn hugsar málið, jórtrar dálítið meira og ýtir svo við drengnum með öðru af voldugu hornunum sínum. Ási hrekkur upp af værum svefni. Honum snarbregður þegar hann sér þessa stóru skepnu gnæfa fyrir ofan sig. Hann sprettur á fætur, skelfingu lostinn og ætlar að reka upp öskur. En … svo stansar hann og horfir betur framan í hrútinn. – Mikki mús! Ert þetta þú? spyr hann undrandi. Hann sér ekki betur en að hrúturinn kinki kolli. Að minnsta kosti hreyfir hann höfuðið upp og niður.
31 Nú er Ási alveg viss. Þetta er Mikki mús, heimalningurinn frá því í fyrravor. Kominn með svona stór og flott horn. Ási er viss um að hrúturinn þekkir hann líka. Hann réttir fram höndina og klappar honum á milli hornanna. Síðast þegar Ási sá Mikka mús var hann helmingi minni. Nú er hann sko orðinn alvöru hrútur. Mikki mús missti mömmu sína þegar hann var nýborinn. Ási gaf honum mjólk úr pela fram eftir sumri og gætti hans vel. Þeir höfðu leikið sér mikið saman og skemmt sér konunglega. Það var líka Ási sem hafði gefið honum þetta nafn. Honum fannst það passa vel af því að hrúturinn er með svört eyru alveg eins og Mikki mús í Andrésblöðunum.
32 SLÓÐ Una kemst léttilega yfir lækinn. Á hinum bakkanum sér hún ýmis ummerki sem hún getur spáð í. Rétt við hliðina á galtómu fötunni hans Ása eru til dæmis nokkrir þræðir úr gallabuxnaefni á steini. Þar glampar líka á eitthvað sem gæti hugsanlega verið blóð! Hmmm! Hvað hefur eiginlega gengið hér á? Hún sér fótspor í moldarflagi á bakkanum. Þar sjást nýleg spor eftir tvær gerðir af skóm. Önnur eru mun stærri en hin.
34 Þarna eru líka brotnar hríslur og tættur mosi. Á lynginu má víða sjá kramin ber og … bíðum nú við! Hvað liggur þarna? Jú, það er tyggjóbréf. Suss! Hver hendir svona rusli hér úti í náttúrunni? Una er stórhneyksluð. Hún hirðir bréfið og stingur því í vasann. Una rekur slóðina lengra frá læknum. Fljótlega kemur hún að brattri brekku. Þar stendur blá fata sem er næstum alveg full af berjum. Þetta hlýtur að vera fatan hans Ævars. En hvar er hann sjálfur? Og hvar er Ási? Nú er Unu hætt að standa á sama. Þetta er í meira lagi dularfullt! Það er eins og jörðin hafi gleypt strákana. Þá sér hún allt í einu eitthvað sem líkist hurðarhúni inni í lynginu.
Una sér líka glitta í hurð! Nei, hættu nú alveg. Una tekur í húninn en dyrnar eru læstar. Hún kallar á Ævar og Ása. Hún ber að dyrum en fær ekkert svar. Hún lemur fastar á hurðina. En það gerist ekki neitt. Þá sest hún á þúfu rétt framan við hurðina og hugsar málið. Hvað á hún að gera núna? Þetta er allt svo skrítið! Að lokum ákveður hún að hringja í mömmu sína. Hana minnir reyndar að mamma hafi farið á einhvern fund í morgun. Hvaða fundur var það nú aftur? Skyldi hann vera búinn? Una tekur fram símann sinn. Eftir svolítið hik velur hún númerið.
36 En þá opnast skyndilega dyrnar í brekkunni. Út koma sterkir handleggir og grípa um axlir hennar. – HJÁLP! æpir Una skelfingu lostin. Sterku handleggirnir kippa henni þá leiftursnöggt inn um dyrnar. Síminn þeytist úr höndum hennar og lendir á mosaþúfu. Dyrnar skellast aftur. Svo verður allt kyrrt og hljótt í berjamó.
37 MIKKI MÚS Ási og Mikki mús er búnir að leika sér svolitla stund. En Ása er illt í hnénu og á bágt með að ganga. Svo man hann eftir Unu og Ævari og langar heim. Allt í einu finnst honum hann heyra Unu kalla. Hann sperrir eyrun. Já, þetta er hún. Og hún er að kalla á hann. Nú kallar hún líka á Ævar. Ási hrópar á móti eins hátt og hann getur: HÆ, UNA! Ég er hérna! HÉRNA!
38 Brátt heyrir hann aftur í Unu en nú kallar hún á hjálp. Svo verður allt hljótt. Ási hugsar sig um. Síðan festir hann bangsann sinn á annað hornið á Mikka mús. Því næst tekur hann föstu taki um bæði hornin og bröltir á bak. Hrúturinn er auðvitað alls ekki vanur því að það sitji einhver á bakinu á honum. Hann er nú ekki neinn hestur. En honum þykir vænt um Ása og vill allt fyrir hann gera. Hann myndi ekki leyfa neinum öðrum að sitja þarna.
39 Ási kemur sér þægilega fyrir og Mikki mús hleypur af stað með hann upp brekkuna. Ási kemst strax upp á lag með að stýra honum. Hann togar ýmist í hægra eða vinstra hornið eftir því í hvora áttina hann vill fara. Hann lætur hrútinn hlaupa með sig alveg upp að brekkunni þar sem hann sá Ævar síðast.
40 En núna er enginn þar. Hins vegar eru þarna þrjár fötur. Ein er græn og full af berjum, önnur er blá og næstum full. En sú þriðja er rauð og galtóm. Það er fatan hans Ása. Rétt hjá berjafötunum liggur sími. Ási þekkir þennan síma. Una á hann. Í brekkunni rétt ofan við föturnar og símann sér hann að lyngið er rifið og tætt. Svo sér hann … Nei, þetta getur nú ekki verið. Eða hvað? Jú, svei mér þá! Það er hurð í brekkunni.
41 KARLAR Inni í hellinum standa tveir karlar. Þeir halda Ævari og Unu blýföstum í járngreipum. En hvað eiga þeir að gera við þessa krakkabjána? – Þetta er alveg kolómögulegt! Helvítis! Þau munu koma upp um allt saman, segir annar þeirra. – Það má aldrei gerast! svarar hinn ákveðinn. Nei, við látum þau hverfa!
42 Hann sendir félaga sínum þýðingarmikið augnaráð. Það fer hrollur um Unu og Ævar. Hvað ætla þeir eiginlega að gera við þau? Ási heyrir mikinn skarkala koma frá hurðinni í brekkunni. Það er einhver þarna fyrir innan.
43 Ási leggur við hlustir. Þá heyrir hann Unu æpa. Og nú heyrir hann líka í Ævari. Hann æpir sömuleiðis. Þar að auki heyrast dimmar og hörkulegar karlaraddir. Ási situr stjarfur á bakinu á hrútnum og rígheldur í hornin. Hann er ráðalaus og veit ekkert hvað hann á að taka til bragðs. En Mikki mús veit alveg hvað hann á að gera. Honum líst illa á þessa óhljóðahurð í miðri brekkunni.
44 Mikki mús setur undir sig hausinn og rótar með framfótunum í lynginu. Svo tekur hann tilhlaup og stefnir beint á hurðina. Ási æpir upp yfir sig. Hann grúfir sig ofan í ullina á Mikka mús. Um leið skella stóru, snúnu hrútshornin á hurðinni með ofurkrafti svo fjalirnar bresta. Tréflísarnar þeytast í allar áttir.
45 SÍMINN Mamma Unu og Ása er á æfingu með björgunarsveitinni lengst inni í dal. Þar æfa þau klifur í klettum. Það er bæði erfitt og hættulegt. En stundum þarf að bjarga fólki sem hefur lent í sjálfheldu uppi á fjöllum. Þá er gott að einhver kunni klettaklifur. Hún er einmitt nýkomin niður úr klettinum þegar síminn hennar hringir. Hún sér að það er Una. Fyrst ætlar hún ekkert að svara. Hún hefur oft sagt krökkunum að þau megi ekki hringja þegar hún er á æfingu. Þau hafa alveg hlýtt því hingað til. Þess vegna finnst mömmu Unu dálítið skrítið að hún skuli hringja núna. Kannski er eitthvað að. Eitthvað alvarlegt?
46 Til að byrja með heyrir mamma ekkert í Unu. Svo heyrast skruðningar og læti. Eftir það heyrir hún dauft hljóð í fjarska. Einhver kallar á hjálp. Getur þetta verið Una? Mamma krakkanna heldur áfram að hlusta. Nú heyrist eins og hurð sé skellt. Svo verður allt hljótt. – Strákar, segir hún við félaga sína. Þið verðið að koma með mér út eftir. Ég held kannski að eitthvað hafi komið fyrir krakkana mína í berjaferðinni. Komið þið. Fljótir! Halló, Una mín! Er nokkuð að hjá ykkur?
47 Þau snarast inn í björgunarsveitarbílinn og aka af stað. Mamma hefur símann opinn og heldur áfram að hlusta. Ekkert heyrist. Jú, nú kveður við jarm og öskur og mikill skellur! Óp og óhljóð í fleira fólki. Svo fjarlægist hljóðið og verður mjög ógreinilegt. – Aktu hraðar, segir hún við bílstjórann.
48 INNI Í BREKKUNNI Það heyrist gríðarlegur hvellur. Næstum eins og sprenging. Hurðin að hellinum tætist í sundur og inn geysist ógurleg ófreskja. Með horn og klaufir. Á baki hennar situr blóðugt og öskrandi kvikindi. Karlarnir verða viti sínu fjær af hræðslu og æpa upp yfir sig. Í óðagotinu missa þeir takið á bæði Ævari og Unu svo að þau sleppa frá þeim.
49
50 Þeir flýja lengra inn í hellinn. Þar innst er hringstigi sem liggur beint upp í kolsvart myrkur. Þrjótarnir hika ekki. Þeir ryðjast upp stigann með ópum og látum. En Una er ekkert hrædd. Hún er himinlifandi. – Ási! hrópar hún. Og Mikki mús! Þið eruð æðislegir. Þið björguðuð okkur. Ævar er líka óskaplega feginn. Hann skilur samt ekki af hverju Una er að babla eitthvað um Mikka mús. En það er aukaatriði.
Ævar veltir því ekki meira fyrir sér í bili því nú flýta þau sér út úr hellinum, út í sólskinið. Þegar út er komið sjá þau hóp manna í rauðum og bláum göllum hraða sér upp hlíðina. Fremst fer mamma Unu og Ása. – Krakkar mínir! Guði sé lof! Er nokkuð að hjá ykkur? hrópar hún móð og másandi. – Nei, nei! Það er sko allt í lagi með okkur, kallar Ási á móti. Krakkar mínir!
52 – En þið ættuð að tékka á þessum körlum þarna uppi, segir Ævar þegar björgunarsveitin er komin alveg til þeirra. Þetta eru smyglarar og ótrúlegir óþokkar. Hann bendir upp á fjallið. Þar efst uppi á klettunum standa mennirnir tveir. Þeir virðast vera í sjálfheldu. – Já, og þeir hefðu sko örugglega drepið okkur ef Ási og Mikki mús hefðu ekki komið, bætir Una við og klappar hrútnum blíðlega.
BER MEÐ RJÓMA Ævar, Una og Ási sitja sæl og glöð við eldhúsborðið á Bakka. Fyrir framan þau eru skálar fullar af berjum og rjóma. Reyndar er Ási bara með rjóma í sinni skál. Honum finnst ber ekkert góð! Hann er líka hræddur um að það geti leynst svo sem eins og einn kúkur einhvers staðar innan um berin.
54 Björgunarsveitarmennirnir voru sannarlega heppnir. Þeir fengu tækifæri til að klifra upp klettana og reka smyglarana aftur niður hringstigann. Þar beið lögreglan og hirti þá. – Þetta var nokkuð hugvitsamlegt hjá þeim, segir mamma Unu og Ása þegar hún kemur heim um kvöldið. En ansi mikið púl. Þeir fluttu smyglvarninginn smám saman að næturlagi og földu í hellinum. Svo báru þeir hvern kassann eftir annan upp hringstigann, alveg upp á fjallstind.
55 Síðan kom lítil þyrla við og við til að sækja varninginn og koma honum í sölu. Það var heilmikið af bæði áfengi og tóbaki þarna og einhverju öðru þaðan af verra sem ég kann ekki einu sinni að nefna, bætir mamma við.
56 – Má ég þá frekar biðja um bláber með rjóma, segir Ævar glaður. Hann gjóar augunum til Unu. Bráðum fer hann suður aftur. En hann er staðráðinn í að bjóða henni í heimsókn til sín einhvern tíma í vetur og fara með henni í bíó. Hann er ekki viss um að Ási fái að koma með. Hann getur bara verið heima hjá sér á meðan og leikið við Mikka mús.
Fleiri sögur í sama flokki eftir Sigrúni Eldjárn
Það er krökkt af berjum í hlíðinni. En þar er líka ýmislegt fleira. Er hurð þarna í miðri brekkunni? Hrútur? Eða Mikki mús? Eitthvað dularfullt er hér á seyði! Skemmtileg og spennandi saga eftir Sigrúnu Eldjárn. Sjálfstætt framhald af sögunni Óboðnir gestir. Hljóðbók má hlaða niður af vefsíðunni www.mms.is 40369
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=