Styrjaldir og kreppa

b 76 STYRJALDIR OG KREPPA : Velmegun og heimskreppa Framboð og eftirspurn Hugsaðu þér að uppáhaldshljómsveitin þín ætli að halda tónleika en þú hafir ekki keypt miða. Þú ferð á staðinn til að athuga hvort þar sé einhver sem vilji selja miða. Fyrir utan stendur strákur sem vill selja einn miða en margir reynast hafa hugsað eins og þú. Tíu manns vilja endilega kaupa miðann. Þeir bjóða hærra og hærra í hann og verðið hækkar ört. Loks býður ein stúlka 20.000 krónur fyrir miða sem hafði upphaflega kostað 4.500 krónur. Enginn býður hærra en stúlkan og hún gengur glöð og ánægð inn í salinn. Sá sem seldi henni miðann er líka ánægður. Hann hefur grætt 15.500 krónur á viðskiptunum. Ef þú ert aftur á móti einn um að vilja kaupa miða og seljandinn vill endilega selja hann mundi hann fallast á miklu lægra verð. Hugsanlega væri hann til í að selja miðann á lægra verði en hann hafði borgað fyrir hann og fá þannig upp í hluta af kostnaði sínum, þó ekki væri meira. Þetta dæmi sýnir sambandið á milli framboðs, eftirspurnar og verðlags. Næstum öll hagfræði er reist á þessu sambandi. Þegar margir vilja kaupa er sagt að eftirspurn aukist. Ef fáir vilja kaupa er sagt að eftirspurn minnki. Ef mikil eftirspurn er eftir vöru hækkar verðið á henni vegna þess að fólk vill borga mikið fyrir að fá hana. Ef eftirspurn er lítil lækkar verðið af því að fólk þarf ekki að borga eins mikið fyrir vöruna. Maður hefur sagt frá hvernig hann upplifði kreppuna í Bandaríkjunum sem drengur: Fyrsta erfiða tímabilið sem ég man eftir var 1933 þegar ég var í áttunda bekk. Það var lokað hjá Travise and Son og í sex mánuði hafði pabbi engar tekjur. [...] Einu sinni fengum við ekkert að borða nema kartöflur í heila viku. Í annað skipti fór bróðir minn í búðina og fékk þá til að gefa sér kjöt handa hundinum sínum – málið var bara að hann átti engan hund. Með kartöflunum borðuðum við kjöt sem var ætlað hundum. Kreppan á Íslandi Til Íslands kom kreppan árið 1931. Íslendingar höfðu þá eignast flota af vélbátum og togurum og fluttu út mikið af saltfiski. En nú féll fiskurinn svo í verði á Evrópumarkaði að stundum þótti ekki borga sig að veiða hann. Þá voru togarar bundnir við hafnargarða og sjómenn og fiskverkunarfólk varð atvinnulaust. Verð á afurðum bænda lækkaði líka af því að færri höfðu efni á að kaupa kjöt, smjör eða mjólk. Á þessum tíma var verkafólk oft ráðið í vinnu einn dag í einu. Í Reykjavík hópuðust verkamenn saman við höfnina á morgnana og biðu eftir því að verkstjórar tíndu einn og einn úr hópnum og byðu honum vinnu þann daginn. Hinir urðu að snúa við heim. Engar atvinnuleysisbætur voru greiddar en sums staðar gat bjargarlaust fólk fengið ókeypis máltíðir. Á árinu 1932 fór Reykjavíkurbær að skipuleggja atvinnubótavinnu. Atvinnulausir karlmenn sem höfðu fyrir fjölskyldu að sjá fengu vinnu í eina til þrjár vikur í mánuði eftir fjölskyldustærð. Víða var kreppan verri en á Íslandi. Hér tókst verkafólki að koma í veg fyrir almenna launalækkun sem varð víða annars staðar. Hins vegar stóð kreppan lengi hér. Á árinu 1936 braust út borgarastyrjöld á Spáni, eins og kemur fram síðar í bókinni, og hún varð til þess að fólk hafði ekki efni á að kaupa íslenskan saltfisk. Atvinnuleysið hvarf ekki á Íslandi fyrr en Bretar hernámu landið árið 1940 og herinn fór að ráða fólk í vinnu. NÆRM Y N D

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=