Styrjaldir og kreppa
b Konur við vinnu í breskri vopnaverksmiðju. Fólk var hvatt til að fara sparlega með mat. Stríðið breytti samfélaginu 32 STYRJALDIR OG KREPPA : Fyrsta nútímastyrjöldin Stríðið breytti ekki aðeins lífi hermanna heldur hversdagslífi fólks í öllum styrjaldarlöndunum. Einnig fékk fólk í hlutlausum löndum, eins og á Íslandi og í nýlendum í fjarlægum heimshlutum, að finna fyrir áhrifum styrjaldarinnar. Á margan hátt breyttist samfélagið varanlega vegna hennar. Konur í vinnu utan heimilis Í fyrri heimsstyrjöldinni mátti í fyrsta sinn sjá konur í störfum bréfbera og strætisvagnastjóra, jafnvel flugvirkja. Þegar svo margir karlmenn gengu í herinn urðu mörg störf laus. Auk þess neyddust sumar konur til að fara í launaða vinnu af því að þær áttu ekki lengur eiginmann til að vinna fyrir heimilinu. Konur lögðu mikið fram til styrjaldarinnar sem verkamenn í vopnaverksmiðjum, landbúnaði, flutningum og sem hjúkrunarkonur. Þegar stríðinu lauk urðu flestar konurnar að láta störf sín af hendi til karlmanna aftur. Samt hafði vinnuþátttaka kvenna á stríðsárunum varanleg áhrif. Þær höfðu sýnt að þær gátu unnið eins mikilvæg störf og karlmenn og í mörgum löndum fengu konur kosningarétt skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Matarskortur Stríðið krafðist aukins framlags frá öllu samfélaginu. Verksmiðjurnar urðu að framleiða vopn og skotfæri og þá var minna framleitt þar af öðrum vörum sem fólk þarfnaðist. Víða leiddi stríðið til matarskorts. Erfitt var að flytja inn matvörur og þar sem margir karlmenn börðust á vígstöðvunum varð skortur á vinnuafli í landbúnaði. Herinn var látinn ganga fyrir með mat, svo að enn minna var handa fólki sem var eftir heima. Þetta kom verst niður í Þýskalandi, Austurríki og Rússlandi. Áætlað er að milli hálf og ein milljón Þjóðverja hafi dáið úr vannæringu. Matarskorturinn olli víða óróa. Verkamenn mótmæltu þegar verð á matvörum hækkaði svo að launin nægðu ekki fyrir mat. Undir lok stríðsins var víða farið í verkföll og mótmælagöngur gengnar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=