Styrjaldir og kreppa
b Vilhjálmi 2. Þýskalandskeisara var umhugað um að gera Þýskaland að miklu stórveldi. Hvers vegna varð stríð? 24 STYRJALDIR OG KREPPA : Fyrsta nútímastyrjöldin Vígbúnaður: Að búa sig undir stríð með því að framleiða vopn og þjálfa hermenn. Öllum hermönnum í fyrri heims- styrjöldinni var sagt að þeir væru að berjast til að verja sitt eigið land. En ef allir voru bara að verja sig, hvernig gat þá skollið á stríð? Samkeppni og tortryggni Stórveldin í Evrópu litu á hvert annað sem keppinauta. Frá því um 1870 kepptu þau sérstaklega um að verða sér úti um nýlendur í Afríku og Asíu. Kapphlaupið um nýlendurnar leiddi til margs konar deilna á milli Evrópuríkja. Ríkin kepptu líka um að framleiða og selja sem flestar vörur. Bretland iðnvæddist fyrst og þess vegna höfðu Bretar lengi forystu í keppninni um að framleiða sem mest af iðnaðarvörum. Slíkar vörur skiluðu miklum tekjum inn í landið. En undir lok 19. aldar tóku Þjóðverjar forystuna og fóru að framleiða meira af iðnaðarvörum en Bretar. Bretar, Frakkar og Rússar höfðu allir áhyggjur af því að Þýskaland var skyndilega orðið voldugt ríki í miðri Evrópu. Frakkar voru líka bitrir yfir því að Þjóðverjar höfðu unnið af þeim héruðin Elsass og Lothringen (eða á frönsku Alsace og Lorraine) árið 1871. Þjóðverjar voru aftur á móti hræddir um að Frakkar mundu vilja hefna fyrir það. Tortryggnin varð til þess að fleiri og fleiri ríki hófu vígbúnað. Um hann kom líka upp samkeppni. Þegar stjórn eins lands komst að því að meira af vopnum var framleitt í nágrannalandinu jók hún eigin vopnaframleiðslu.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=