Styrjaldir og kreppa

b STYRJALDIR OG KREPPA : Stríðið sem kom við alla 129 Breskur herflokkur á Akranesi. Mestur varnarviðbúnaður var á Suðvesturlandi sem var hernaðar­ lega mikilvægasta svæði landsins. Hernám Íslands Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku, 9. apríl 1940, var Ísland orðið sérstakt ríki en konungur Dana var jafnframt konungur Íslendinga og Danir sáu um utanríkismál og landhelgisgæslu Íslands. Alþingi Íslendinga fannst ekki koma til greina að vera að neinu leyti undir stjórn manna sem væru undir hernámi nasista og strax nóttina eftir samþykkti Alþingi að fela ríkisstjórn Íslands konungsvald yfir landinu og önnur mál sem Danir höfðu annast. Íslenska ríkið hafði lýst því yfir að það væri hlutlaust í hernaði og það hafði engan her. Eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku buðust Bretar til að taka að sér varnir Íslands til að koma í veg fyrir að Þjóðverjar yrðu á undan þeim en ríkisstjórn Íslands afþakkaði það. Íslendingar treystu enn á hlutleysið. Síðan gerðist það aðfaranótt 10. maí um vorið, rétt fyrir klukkan fjögur, að Reykvíkingar sem vöktu eða sváfu laust heyrðu í flugvél, sem var ekki algengt þá. Þeir sem litu út og höfðu útsýni yfir höfnina gátu séð að þrjú herskip voru að sigla inn í hana og önnur fleiri fylgdu á eftir. Fólk vissi ekki hvort þetta væru bresk eða þýsk skip. Brátt streymdu hermenn inn í miðbæ Reykjavíkur og þá kom í ljós að tungumál þeirra var enska. Mun flestum hafa létt við það. Engin mótspyrna var veitt og ekki hleypt af skoti.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=