Styrjaldir og kreppa

b STYRJALDIR OG KREPPA : Allt vald til foringjans 103 sífellt undir sig meira land. Flestir fóru að skilja að ný stórstyrjöld væri óhjákvæmileg. Griðasáttmáli við Sovétríkin Hinn 23. ágúst 1939 urðu ráðamenn í Vestur-Evrópu fyrir nýju áfalli. Þá var gert opinbert að Sovétríkin og Þýskaland hefðu gert samning um að ráðast ekki hvort á annað. Fyrir fram hefði enginn trúað að það gæti gerst. Kommúnistar sem réðu Sovétríkjunum og nasistar sem réðu Þýskalandi höfðu alltaf litið hvorir á aðra sem andstæðinga. Hvernig gátu þeir komið sér saman um griðasamning? Stalín, sem stýrði Sovétríkjunum, fannst Þýskaland vera mikil ógn en hann var líka tortrygginn á Vesturveldin. Í Vestur-Evrópu voru margir eins hræddir við kommúnismann og nasismann og Stalín óttaðist að Vesturveldin vildu að Þjóðverjar færu í stríð við Sovétríkin svo að bæði ríkin lömuðust. Auk þess lofaði Hitler að Sovétríkin fengju stjórn á stórum landsvæðum í Austur-Evrópu. Í leynilegum viðbótarsamningi höfðu einræðisherrarnir tveir nefnilega samið um hvernig þeir ætluðu að skipta Evrópu á milli sín. Hitler hafði raunar allan tímann haft í hyggju að ráðast á Sovétríkin, fyrr eða síðar, en hann vildi forðast að berjast við Sovétríkin og Vesturveldin samtímis. Þess vegna gerði hann samninginn við Stalín. Ný Evrópustyrjöld Eftir að Þjóðverjar höfðu lagt Tékkóslóvakíu undir sig sáu Bretar og Frakkar að næsta skref Hitlers yrði að leggja undir sig hluta af Póllandi, þar sem margir íbúanna töluðu þýsku. Nú ætluðu þeir loksins að stöðva hann og ábyrgðust þess vegna varnir Póllands. Bretar og Frakkar lofuðu að fara í stríð við Þjóðverja ef Þjóðverjar réðust á Pólland. En Hitler lét það ekki stöðva sig. Ef til vill var hann ekki viss um að Bretar og Frakkar stæðu við það sem þeir höfðu lofað. Þeir höfðu svo oft mótmælt því sem hann gerði án þess að gera nokkuð meira. Þann 1. september 1939 réðust þýskar hersveitir inn í Pólland og tveimur dögum síðar sögðu Bretar og Frakkar Þjóðverjum stríð á hendur. Þannig byrjaði síðari heimsstyrjöldin. Hvers vegna varð stríð? Flestir eru sammála um að það hafi verið Þjóðverjar sem byrjuðu það. Hernám þeirra á hverju landinu eftir annað hlaut að lokum að leiða til styrjaldar, telja flestir. Sumir vilja kenna Hitler einum um en aðrir segja að ráðamenn í hinum löndunum beri líka nokkra ábyrgð því að þeir hafi gert of lítið til að stöðva hann fyrr. Pólitísk skopteikning af Hitler og Stalín frá 1941.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=