Snorra saga
son sinn en gat bara ekki að því gert að hvað honum þótti gam an að ræða um skáldskap við Sturlu frænda sinn. Sumarið 1240 bárust váleg tíðindi frá Noregi. Þar hafði komið til ófriðar milli Hákonar konungs og Skúla hertoga sem hafði lokið þannig að Skúli vinur Snorra féll. Greinilegt var því að uppreisn hans gegn konungi hafði mistekist. Snorri sá að hann sjálfur hafði líklega veðjað á rangan hest í valdabaráttunni í Noregi. Ljóst var að nú yrði hann ekki Íslandsjarl í bili. Best væri að hafa sem allra hljóðast um það sem þeim Skúla hafði farið í milli. Snorri reyndi því að hafa frekar hægt um sig. Enn rann upp nýtt sumar 1241. Þá reið Snorri til þings og reyndi nú að ná sáttum og semja við Gissur og Kolbein unga, meðal annars fyrir hönd Tuma Sighvatssonar sem honum fannst rétt látt að fengi bætur fyrir víg föður síns og bræðra. Snorri náði að hefja viðræður við Gissur en þá kom Kolbeinn ungi til þings með mikið lið og spillti öllu. Kolbeinn og Gissur ræddust við og eftir það gat ekkert orðið af sáttum við Sturlunga. Snorri hafði líka meiri áhyggjur af öðru: Um þingtímann í júní hafði Hallveig orðið alvarlega veik. Smátt og smátt versnaði henni þar til hún lést seint í júlí. Snorri syrgði hana mikið. Ormur og Klængur synir hennar vitjuðu strax um arf eftir móður sína. Greiðlega gekk að skipta lausamunum en þegar kom að jarðeignum var Snorri ósveigjanlegur. Varð úr þessu deila við syni Hallveigar sem meðal annars vildu fá Bessastaði en Snorri sagðist hafa útvegað þá jörð sjálfur í búið. Snorri gaf sig ekki með þetta og bræðurnir þóttust órétti beittir af honum og leituðu ásjár hjá Gissuri Þorvaldssyni föðurbróður sínum. 59
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=