Snorra saga

Það var eins og spádómur Egils Skallagrímssonar ætlaði ekki að rætast. Snorra gekk allt í haginn þó hann hefði flutt frá Borg. Hann var orðinn moldríkur og naut vaxandi virðingar. Kvenhyllin var í góðu lagi og hann eignaðist smám saman fleiri börn með hjákonum og kærustum. Eldri börnin, Hallbera og Jón, voru oft hjá honum í Reykholti, en annars á Borg hjá Herdísi. Þau voru efnileg en kom illa saman. Jón sagði að Hallbera væri stórskrítin, eiginlega hálfbiluð, en Hallbera stríddi honum á móti út af því hvað hann var lítill. – Jón murtur! sagði hún. Murtur eða murta er pínulítill silungur. Þetta er svona svipað og ef einhver væri núna uppnefndur Nonni sardína. Nafnið festist við Jón og það fannst honum leiðinlegt. En þegar hann var orðinn fullorðinn var hann ekkert minni en aðrir og þá var honum alveg sama um nafnið, fannst það bara flott. Meðal yngri barnanna voru systurnar Ingibjörg og Þórdís og loks sonurinn Órækja. Hann var tápmikill drengur og góður sonur en oft dálítið erfiður. Snorri átti áreiðanlega miklu fleiri börn en sum þeirra komust ekki á legg og önnur eru gleymd. Guðný móðir Snorra var nú tekin að eldast og loks flutti hún úr Hvammi og kom í Reykholt til Snorra. Henni fannst gott að fá að vera í ellinni hjá þessum fræga syni sínum, lögsögumanninum, sem hún hafði þurft að senda frá sér svo snemma. Snorri þreyttist aldrei á að heyra hana fara með sögur og kvæði. Hann lét skrá það allt saman niður og bar saman við annað sem hann hafði lært í Odda og á Borg og víðar. Sagnaritunin, skáldskapurinn og fræðin heilluðu hann alltaf mest, hvað svo sem öllum völdum og vegtyllum leið. Stundum fannst honum hreinlega eins og veraldarvafstrið og höfðingjaskyldurnar trufluðu hann fullmikið frá ritstörfunum. Menn voru alltaf eitthvað að kvabba á honum. En á veturna gafst honum samt oft góður tími til að sökkva sér ofan í skrifin. 35

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=