Smátímasögur - Fyrir þig
96 Einstein sjálfur hafði skrifað um ormagöng. Ekki hafði ég haft hugmynd um það. Og neðar las ég: „Ef ferðalög um ormagöng væru möguleg eru líkur á því að þau gætu ekki aðeins fært okkur á milli staða heldur einnig aftur í tímann; þau væru eins konar tímavél.“ Tímavél? Það hríslaðist eitthvað niður hrygginn á mér. Ég vissi ekki hvort það var ótti eða spenna. Var þetta kannski stjarna úr fortíðinni? Eða kannski framtíðinni? Ég leit aftur í kíkinn. Stjarnan púlsaði. Mér fannst eins og það hefði aukist frekar en hitt. Stjarnan blikkaði nokkrum sinnum, hratt. Ljósið dofnaði og birtist svo aftur og skein andartak. Svo blikkaði stjarnan aftur hratt. Síðan hægt, svo aftur hratt, þrisvar í röð. Ég kíkti á hinar stjörnurnar í kring. Þær blikkuðu ekki svona. Af hverju hegðaði þessi sér öðruvísi? Það var þá sem ég fattaði það. Þetta hlaut að vera merki. Það var einhver að reyna að segja okkur eitthvað. Ég fylgdist með stjörnunni og reyndi að átta mig á því hvort ég sæi mynstur. Ég skrifaði niður flöktið, það var stundum stutt og stundum langt. Það tók mig nokkrar tilraunir og ég ruglaðist nokkrum sinnum en eftir um það bil hálftíma var ég alveg sannfærð um að blikkið væri ekki tilviljanakennt. Þetta var ákveðið mynstur sem endurtók sig: Stutt, stutt, stutt, stutt. Bil. Stutt, langt. Bil. Stutt, langt, stutt, stutt. Bil. Stutt, langt, stutt, stutt. Bil. Langt, langt, langt, langt. Og svo byrjaði allt upp á nýtt.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=