Smátímasögur - Fyrir þig

84 Það er miklu betra að vera hér en þegar ég bjó í blokk og mátti ekki fara út nema í bandi. Ég þarf ekki einu sinni að vera með ól hérna því það er girðing og ég kemst ekki neitt!“ Allir kettirnir höfðu einhvern tíma verið neyddir til að vera með ólar og þeim fannst þetta mjög merkilegar upplýsingar. Nýi garðurinn hans Snata var himnaríki þar sem enginn þurfti að vera með ól! Hann hélt áfram. „Og svo ...“ En þá gerðist það. Það sem mátti alls ekki gerast! Annar kettlinganna sem elskuðu sósur missti jafnvægið og steyptist ofan í garðinn. Hann lenti harkalega í grasinu og áður en nokkur köttur gat stokkið til og stoppað Snata hafði hundurinn hlaupið af stað. „Hann ætlar að éta hann!“ veinaði Frú Snúllu-Dúlla. Hún setti upp svip sem átti að lýsa hrikalegri skelfingu en inni í sér var hún hoppandi af kæti. Nú myndi viðbjóðslegt hundseðlið taka yfir! Allir vita að uppáhaldsmatur hunda eru kettlingar! Hér var engin gardína sem myndi bjarga málunum! En það var ekki það sem gerðist. Það sem gerðist var þetta: Snati hljóp að kettlingnum og ýtti varlega við honum með trýninu. „Er í lagi með þig?“ spurði hann blíðlega. Kettlingurinn vældi smá en kinkaði svo kolli. „Mmm ... já,“ sagði hann. Snati brosti. „Á ég að hjálpa þér að komast aftur upp?“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=