Smátímasögur - Fyrir þig
63 sem eru uppglennt, stór og biðjandi. Svo hristir hann höfuðið. „Hver ert þú? Hvar er ég?“ „Ég heiti Þuríður Saga …“ Við þetta er eins og birti aðeins yfir honum, og hann hvíslar „Saga“ lágum rómi. „…og þú ert staddur í Óttulundi 11.“ „Óttulundi? Hvar er það?“ spyr hann forviða á svip. „Umm, það er bara hér.“ Ég veit ekkert hvernig ég á að svara þessu. „En hver ert þú og hvað varstu að gera undir rúminu mínu?“ spyr ég á móti og hann andvarpar svo þungt að það sker í hjartað. „Ég heiti Janus,“ segir hann niðurlútur, „og ég er að reyna að bjarga þorpinu mínu.“ „Hvernig ætlarðu að gera það undir rúminu mínu?“ spyr ég hissa. „Ég ætlaði sko ekkert að lenda undir rúminu þínu,“ svarar hann með grátstafinn í kverkunum. Svo sýgur hann upp í nefið, horfir beint framan í mig og segir mér þá furðulegustu sögu sem ég hef á ævinni heyrt! Hann segist koma frá litlu einangruðu þorpi í friðsælum dal, þar sem þorpsbúar una sáttir við sitt og vanhagar ekki um neitt. Alla daga ganga þeir glaðir til vinnu og á kvöldin koma þeir saman og syngja og dansa. Á hverju fullu tungli kemur sagnamaðurinn í heimsókn. Þá safnast allir saman og hlýða á sögur við sagnaeldinn sem tendraður er í hjarta þorpsins. Þetta segir hann mér með dreymnu brosi, það er greinilegt að honum þykir vænt um þorpið sitt.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=