Smátímasögur - Fyrir þig
35 Stóri bróðir Friðrik Erlingsson Hann opnaði augun og sá ekkert nema myrkur. Loftið var svo þétt af ryki að hann gat varla andað. Hann lá á maganum á köldu steingólfi og eitthvað þungt hvíldi ofan á fótleggjum hans svo hann gat ekki hreyft þá. Myrkrið var svartara en svart, hvort sem hann hafði augun opin eða lokuð, og þögnin fyllti eyrun eins og bómull. Það eina sem hann mundi var að hann hét Hússein og var ellefu ára. En hann mundi ekki hvers vegna hann var hér. Hann vissi ekki einu sinni hvar hann var. Hvað hafði eiginlega komið fyrir? Hann mundi eftir deginum þegar hann fór með mömmu á stóra markaðinn í miðbænum. Þau höfðu keypt fisk og græn- meti, hann mundi það. Og mamma hafði keypt jakka handa stóra bróður, svo honum yrði ekki kalt á þessum eilífu sendi- ferðum upp í fjöllin. Jakkinn var úr mjúku ólífugrænu skinni, fóðraður með hvítri lambagæru með litlum krullum. Það var rennilás á ermunum svo það var hægt að taka þær af og nota jakkann eins og vesti. Hússein mundi vel að hann hafði ætlað að segja við stóra bróður: „Jæja karlinn, hér færðu nú góða flík sem þú skalt fara vel með, vegna þess að ég ætla að eignast þennan jakka þegar ég er orðinn stór.“
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=