Smátímasögur - Fyrir þig

23 EINS OG Í SÖGU Ragnheiður Gestsdóttir Þeir eru rétt á hælunum á honum. Kennarinn tók ekkert eftir því að þeir fóru ekki út í frímínútur, hún var upptekin við að leysa úr deilu um hver mætti nota sparkvöllinn. Hann veit að þeir ætla að góma hann og lúskra á honum, en hann veit ekki hvers vegna. Stundum er það af því að hann er ekki góður í fótbolta, eða af því að hann er í asnalegri peysu, eða af því að hann fór einu sinni að gráta þegar hann datt og meiddi sig, eða af því að hann er með gleraugu. En Gunni er líka með gleraugu, Hafþór er ennþá lélegri en hann í fótbolta og Darri hefur oft farið að grenja þótt hann hafi ekki einu sinni meitt sig. Samt er þeim ekki strítt. Það er ekki út af neinu af þessu sem strákarnir stríða honum og lemja hann. Þetta er bara svona. Og nú er eina ráðið að koma sér einhvers staðar í skjól, að finna stað þar sem hann getur falið sig þangað til bjallan hringir aftur. Hann hleypur fyrir horn og lendir þá næstum í fanginu á skólastjóranum. – Rólegan æsing! Hvert ert þú að þjóta? Áttu ekki að vera úti?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=