Smátímasögur - Fyrir þig

147 Einn sá allra besti var svona: Eftir þrjátíu ára afmælishóf kvenstúdenta í vor, var ein konan að því spurð, hvort þetta hefði ekki verið hressilegur hópur. „Ja, það voru sömu gamalkunnu andlitin, eitthvað hafði þeim fækkað síðan síðast, en nýjum tönnum fjölgað.“ Hinir brandararnir virtust þaðan af verri svo hann vafði bókinni aftur inn í plastpokann, ákveðinn í að sæta lagi og koma henni í nytjagáminn í næstu Sorpuferð. Kannski var bara líka allt í lagi að skella henni í pappírsgáminn aftur og leyfa henni að endurvinnast. Nei, reyndar ekki, hún gat þrátt fyrir allt komið einhverjum að gagni, verið til nytja þó enginn ætti líklega eftir að lesa hana. Hún hlaut að minnsta kosti að geta gert sig sem hilluskraut eins og til dæmis bækurnar í IKEA. Hann gekk frá eftir sig í eldhúsinu. Burstaði tennurnar rækilega inni á baði, fór svo inn í herbergið sitt, stakk pok- anum með bókinni undir rúmið, tók fram klarinettið og setti það saman, stillti blaðið vel og vandlega í munnstykkið og æfði sig síðan hátt í klukkutíma. Að því loknu ákvað hann að skella sér til afa og ömmu. Það var alltaf ansi notalegt að hitta þau, sérstaklega þegar þau voru nýkomin að utan. Hann hringdi fyrst til að gá hvort þau væru ekki áreiðanlega heima. – Jú jú jú, við erum hér, sagði amma hans, förum varla langt í bili. Þú veist að þú ert alltaf sannur aufúsugestur. Annað hvort væri nú. Endilega drífðu þig.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=