Smátímasögur - Fyrir þig

114 hann inn á svellkalt hallargólf baðað silfraðri skjannabirtu. Hann skreið varlega á fætur, nuddaði olnbogann og litaðist um. Risavaxinn, hvítur hrafn flögraði yfir höfði hans. Loftið var bláleitt og stjörnum prýtt. Eftir klettaveggjunum dönsuðu norðurljós og við enda salarins sindraði svanatjörn. Á syllum allt um kring sátu fleiri hvítir hrafnar og fylgdust grannt með gestinum. – Gestur í björgin! Gestur í björgin! Kominn í álfaleiki! gargaði hrafninn stóri og tók djúpar dýfur í áttina að Vali. Valur sá nú að hann var staddur í stórri hvelfingu. Hún var silfri prýdd og víða glitruðu eðalsteinar í klettaveggjum. – Viltu leika við okkur Bergdísi? Seiðandi rödd bergmálaði í salnum en Valur sá ekki hvaðan hún kom. – Okkur Glódísi finnst gaman að leika, sagði önnur rödd og Valur skimaði í allar áttir eftir eigendunum. – En þér? var spurt og nú var hvíslað í eyra hans. Valur hrökk í kút og leit við. Sú dökkleita stóð þétt upp við hlið hans og brosti. – Finnst þér ekki gaman að leika? hvíslaði Glódís í hitt eyra hans og strauk honum um hárið. Það var eins og þær drægju úr honum allan mátt. Augna- ráðið var lamandi. Valur fann að hann varð að gæta þess að líta ekki í augun á þeim. – Hvar er systir mín? spurði hann og hörfaði upp að kletta- veggnum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=