Smátímasögur - Fyrir þig
104 En ég réð þessu og enginn gat sagt neitt við því þótt þeim fyndist nafnið ekki passa. Því sá sem finnur stjörnuna fær að ráða hvað hún heitir. Ég fylgdist með Litlu-Hvít blikka kveðjuna sína. „Halló, halló,“ hvíslaði ég á móti. Svo hrukkaði ég ennið. Það var eitthvað öðruvísi. Þetta var ekki sama mynstur og nóttina áður. Ég sótti blað og blýant og gömlu, lúnu Morse-bókina hennar mömmu. Þetta var alls ekki sama mynstrið. Þetta var miklu flóknara. Ég ruglaðist nokkrum sinnum svo það tók mig svolítið langan tíma að ná því hreinu. Sem betur fer var Morse-lykilinn auðveldur í notkun svo ég var ekki lengi að ráða skilaboðin. S-J-A-U-M-S-T-S-I-D-A-R „Sjaumstsidar?“ las ég. Þetta gat ekki verið rétt. Ég hlaut að hafa ruglast eitthvað í talningunni. Ég starði á stafina á blaðinu fyrir framan mig. Svo var eins og það smylli eitthvað saman í höfðinu á mér. Það voru náttúrlega ekki íslenskir stafir í Morse-lyklinum! Þarna stóð: „SJÁUMST SÍÐAR.“ Ég tók andköf og leit upp í himininn. Litla-Hvít var horfin.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=