Smátímasögur - Fyrir þig
99 „Nei, það er það sem stendur hér,“ sagði hún stóreyg. „Halló?“ „Já. H-A-L-L-O.“ Mamma benti á blaðið. Þar hafði hún skrifað það stórum stöfum undir hrafnasparkinu mínu. HALLO. Við litum hvor á aðra. „Ég held að þú hafir kannski verið að taka á móti fyrstu skilaboðunum frá geimverum,“ sagði mamma. Síðan klappaði hún mér á kollinn og stóð upp til að ná í símann. Það var langt liðið á morguninn þegar ég vaknaði. Enda hafði ég farið mjög, mjög seint að sofa. Við mamma vorum báðar svo spenntar að við enduðum á að fá okkur heitt kakó og kveikja á bíómynd til að róa okkur. Á meðan var fullt af fólki annars staðar á hnettinum á fullu að horfa á stjörnuna sem ég hafði uppgötvað. Mamma hafði hringt í einhvern sem hringdi í einhvern og þá hafði allt farið í gang. Alveg ALLT. Ég meina NASA og læti. Ég trúði því varla þar sem ég sat þarna í stofunni okkar með kakó í gamla Barbapabba-bollanum mínum og Mamma Mia í sjónvarpinu á móti mér. Allt hafði breyst. En samt hafði ekkert breyst. Gamli sófinn okkar var eins. Gamla lúna teppið. Ég var eins. En samt voru geimverur til og þær voru að reyna að tala við okkur.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=