Smásagnarsmáræði

72 - Smásagnasmáræði gumsið svo undarlega uppi í manni, hvort ekki væri þá betra að fá sér hraun. Gat síðan ekki bara verið að maður fengi meira fyrir peningana ef maður keypti bland í poka? Oftast vorum við heima hjá Steinu. Foreldrar hennar voru ekki kommar, enda höfðu þau nýlokið við að byggja einbýlis- hús uppi í Ártúnsholti. Ekki hefði hvarflað að þeim að fara í ríkið fyrir börnin sín. Þau hefðu aldrei haft tíma til þess. Þau ráku fyrirtæki og voru alltaf í vinnunni. Því síður hefðu pabbi minn og mamma gengist inn á að kaupa áfengi fyrir mig, hefði ég kært mig um það, enda var óhófleg áfengis- neysla eitur í þeirra beinum. Þau töluðu oft um það hvað hinn og þessi væru miklar fyllibyttur. Samt vantaði aldrei áfengið heima hjá okkur svo líklega fór einhver í ríkið. Pabbi fékk sér í glas á kvöldin. Fyrstu soparnir kættu hann svo að hann trallaði jafnvel yfir tíðindum af bolfiskaflanum. Þegar náttúrulífsþættirnir byrjuðu var brúnin farin að þyngjast og um það bil sem blettatígur læsti klónum í antilópu var pabbi farinn að röfla. Þá tilkynnti mamma festulega að nú færu þau inn að sofa. Hún bauð mér góða nótt en hann ekki. Hann virtist heldur ekki sjá mig þegar hann studdi sig við vegg- inn yfir höfðinu á mér á leiðinni inn í svefnherbergi. Það var eins og hann væri staddur í myrkum bæjargöngum og ég bara ósýnileg andaflyksa. Herbergi foreldra minna var við hliðina á mínu og því sat ég yfir sjónvarpinu fram eftir kvöldi til að þurfa ekki að hlusta á þau í gegnum vegginn. Hann þrasaði og hvæsti.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=